Sýningum á Fíasól gefst aldrei upp er lokið.
Barnasýning ársins á Sögum 2024
Fíasól gefst aldrei upp snýr nú aftur á Stóra sviðið ásamt öllum barnahópnum í þessari vinsælu fjölskyldusýningu sem gekk fyrir fullu húsi á síðasta leikári, hlaut fjórar tilnefningar til Grímunnar og fern verðlaun á Sögu, verðlaunahátíð barnanna, þar á meðal fyrir Barnasýningu ársins.
Hún er óstöðvandi gleðisprengja, full af orku en stundum löt, skarpgreind en fljótfær og svo hugmyndarík að foreldrum hennar stendur hreinlega ekki alltaf á sama. Stelpuskottið Fíasól er fyrir löngu orðin sígild í íslenskri barnabókmenntasögu og á sér aðdáendur á öllum aldri. Hér stígur hún aftur á Stóra sviðið í Borgarleikhúsinu í nýrri leikgerð sem byggir á rómuðum skáldverkum Kristínar Helgu Gunnarsdóttur.
Leikstjórinn Þórunn Arna Kristjánsdóttir leiðir úrvalslið leikara og magnaðan barnahóp í fjölskyldusöngleik með frumsaminni tónlist hins góðkunna Braga Valdimars Skúlasonar.