Leikskrá

Ungfrú Ísland

Ungfrú Ísland er 721. frumsýning Leikfélags Reykjavíkur. Frumsýning 17. janúar á Stóra sviði Borgarleikhússins. Sýningartími er þrjár klukkustundir. Eitt hlé. Ljósmyndir eru teknar á æfingum og því ekki endanleg heimild um sýninguna.

Leikarar

Hekla: Íris Tanja Flygenring

Jón John: Fannar Arnarsson

Ísey: Birna Pétursdóttir

Starkaður: Hjörtur Jóhann Jónsson

Lýður og önnur hlutverk: Haraldur Ari Stefánsson

Gottskálk og önnur hlutverk: Valur Freyr Einarsson

Steinþóra og önnur hlutverk: Sólveig Arnarsdóttir

Örn og önnur hlutverk: Vilhelm Neto

Rannveig og önnur hlutverk: Þórunn Arna Kristjánsdóttir

Sirry og önnur hlutverk: Esther Talía Casey

Fésýslumaður og önnur hlutverk: Jörundur Ragnarsson

Hermaður: Unnsteinn Manuel Stefánsson

Höfundur

Auður Ava Ólafsdóttir er rithöfundur sem hefur skrifað skáldsögur, ljóð og leikrit. Hún lærði listfræði í París og kenndi um árabil við Háskóla Íslands áður en hún snéri sér alfarið að ritstörfum. Skáldsögur Auðar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og hún hefur hlotið bæði íslensk og erlend bókmenntaverðlaun fyrir verk sín, þar á meðal Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Fyrir Ungfrú Ísland hlaut Auður frönsku bókmenntaverðlaunin Prix Médicis étranger og einnig spænsku verðlaunin San Clemente Rosalía sem veitt eru fyrir bestu erlendu skáldsöguna. Af verkefnum hennar í Borgarleikhúsinu má nefna Ekki gleyma að anda í samstarfi við Sokkabandið og danska verðlaunaverkið Ég hleyp sem hún þýddi.

Leikgerð

Bjarni Jónsson í samvinnu við Grétu Kristínu Ómarsdóttur. Bjarni lauk magisterprófi í leikhúsfræðum frá háskólanum í Munchen 1992 og hefur frá árinu 1994 verið sjálfstætt starfandi sem leikskáld, dramatúrg, þýðandi og framleiðandi. Bjarni hefur á síðustu árum starfað með leikhópnum Kriðpleir og er einnig dramatúrg leikhópsins The Brokentalkers í Dublin. Hann er einn af stofnendum leiklistarhátíðarinnar LÓKAL. Hann hefur þýtt mikinn fjölda leikrita og skáldsagna og hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín.

Leikstjórn

Gréta Kristín Ómarsdóttir er leikstjóri, dósent í sviðslistum og fagstjóri sviðshöfundabrautar við Sviðslistadeild LHÍ. Hún útskrifaðist með B.A.-gráðu frá sviðshöfundabraut LHÍ árið 2016 og lauk M.A.-gráðu í leikstjórn við Listaháskólann í Helsinki árið 2023. Gréta hefur leikstýrt í öllum helstu sviðslistastofnunum landsins og jafnframt í sjálfstæðu senunni en hún er einn stofnmeðlima leikhópsins Stertabendu. Af nýlegum sýningum hennar má nefna And Björk, of Course … hjá Leikfélagi Akureyrar og í Borgarleikhúsinu, Vinnukonurnar í Helsinki og Góðan daginn, faggi sem var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu. Gréta hefur þrívegis verið tilnefnd til Grímunnar og hlaut verðlaunin árið 2017.

Leikmyndahönnun

Kristinn Arnar Sigurðsson, einnig þekktur undir nafninu Krassasig, útskrifaðist frá Myndlistarskólanum í Reykjavík árið 2018. Eftir útskrift hefur hann starfað á breiðum vettvangi sviðslista, sjónlista og hönnunar. Hann hefur skapað sér nafn sem hönnuður leikmynda fyrir tónlistarmyndbönd, tónleika og sviðsverk og starfað þar með tónlistarfólki á borð við Bríeti, Of Monsters and Men og Ólaf Arnalds. Af sviðsmyndum hans fyrir leikhús má nefna Ég býð mig fram 3, Kanarí í kjallaranum í Þjóðleikhúsinu og SUND í Tjarnarbíói.

Meðhöfundur leikmyndar og myndbandshönnun

Brynja Björnsdóttir útskrifaðist frá Myndlistadeild LHÍ árið 2008 með B.A. gráðu í myndlist og með meistaragráðu í leikmyndahönnun frá Royal Central School of Speech and Drama árið 2013. Hún hefur hannað leikmynd og búninga fyrir Borgarleikhúsið, Þjóðleikhúsið, L.A. og fjölda sjálfstæðra leikhópa. Af nýlegum verkefnum hennar má nefna Allt sem er frábært og Með Guð í vasanum í Borgarleikhúsinu og Hamingjudagar og And Björk, of course ... fyrir Leikfélag Akureyrar. Brynja var tilnefnd fyrir leikmynd ársins fyrir Súldarsker á Grímuverðlaununum 2011.

Búningar

Filippía Elísdóttir hefur komið að á annað hundrað sýninga sem búninga- og sviðsmyndahönnuður, listrænn ráðgjafi og höfundur gjörninga. Sem búninga- og sviðsmyndahönnuður hefur hún starfað fyrir leikhús, óperur og kvikmyndir, jafnt á Íslandi sem erlendis og hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir störf sín, þar á meðal Fálkaorðuna árið 2016. Af nýlegum verkefnum hennar í Borgarleikhúsinu má nefna Níu líf, Ég hleyp og Mátulega.

Lýsing og myndbandshönnun

Pálmi Jónsson er fastráðinn ljósahönnuður hjá Borgarleikhúsinu sem starfað hefur víða síðustu ár bæði sem sjálfstætt starfandi hönnuður og fyrir hinar ýmsu lista- og menningarstofnanir. Þá hefur hann hannað sviðsgrafík fyrir viðburði á borð við Söngvakeppni sjónvarpsins og Eurovision. Af nýlegum verkefnum hans í Borgarleikhúsinu má nefna Svartþröst, Með Guð í vasanum, Eitraða litla pillu og Fíasól gefst aldrei upp.

Tónlistarstjórn og hljóðmynd

Unsteinn Manuel Stefánsson er tónlistarmaður en hefur einnig starfað töluvert við dagskrár- og heimildarmyndagerð auk gerð tónlistarmyndbanda. Hann hefur starfað með hljómsveitinni Retro Stefson frá árinu 2006 en hefur líka gefið út töluvert af efni undir eigin nafni. Unnsteinn hefur samið tónlist og gert hljóðmyndir fyrir leikhús og árið 2023 hlaut hann Grímuverðlaunin fyrir bestu hljóðmyndina fyrir Íslandsklukkuna. Þá hefur hann hlotið bæði Edduna og Íslensku tónlistarverðlaunin oftar en einu sinni auk ýmissa annarra verðlauna og viðurkenninga.

Hljóðmynd

Jón Örn Eiríksson útskrifaðist úr hljóðtækni hjá Stúdíó Sýrlandi árið 2020 og er einnig með sveinspróf í rafeindavirkjun. Hann hefur starfað við hljóðvinnu hjá áhugaleikfélögum sem og í atvinnuleikkhúsi og víðar, t.a.m. hjá Luxor. Jón Örn hefur starfað hjá Borgarleikhúsinu frá árinu 2021 og hefur m.a. hannað hljóðmynd fyrir leiksýningarnar Bara smástund!, Góða ferð inn í gömul sár og Prinsessuleikana.

Leikgervi

Elín S. Gísladóttir útskrifaðist úr textíldeild MHÍ árið 1990. Hún hefur starfað við leikgervadeild Borgarleikhússins frá árinu 2005 og haustið 2018 tók hún við sem deildarstjóri leikgervadeildar. Elín hefur starfað við fjöldann allan af sýningum og af nýlegum sýningum má nefna Níu líf, Með Guð í vasanum, Fíasól gefst aldrei upp og Sýslumann Dauðans. Elín sinnir einnig listsköpun undir eigin nafni.

Sviðshreyfingar

Cameron Corbett

Aðrir aðstandendur

Sýningastjórn: Halla Káradóttir

Hljóðkeyrsla á sýningum: Máni Magnússon

Hljóð á sviði: Eygló Höskuldsdóttir Viborg og Hjörtur Andri Hjartarson

Ljósakeyrsla á sýningum: Alex Leó Kristinsson og Kristinn Snær Sigurðsson

Eltiljós: Óskar Gíslason, Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir, Sigrún Ásta Halldórsdóttir, Stefán Daði Karelsson, Steiney Einarsdóttir, Þorgerður Þorkelsdóttir

Sviðsmenn: Guðni Gunnarsson, Haukur Hildarson, Heba Sól Baldursdóttir, Laufey Haraldsdóttir, Máni Þorgilsson

Leikmunaverðir: Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir, Sólrún María Jóhannsdóttir

Aðstoð við leikmunagerð: Helga Rut Einarsdóttir

Aðstoð við búningagerð: Geirþrúður Einarsdóttir

Dresser: Andrea Ösp Karelsdóttir, Diljá Pétursdóttir, Klara Sigurðardóttir

Leikgervi: Andrea Ruth Andrésdóttir, Elsa Þuríður Þórisdóttir, Guðbjörg Ívarsdóttir, Hera Hlín Svavarsdóttir, Hildur Emilsdóttir, Íris Bergsdóttir, Íris Lorange Káradóttir, Katrín Erla Friðriksdóttir, Kristín Elísabet Kristínardóttir, Sara Friðgeirsdóttir, Sigurveig Grétarsdóttir, Snædís Birta Ásgeirsdóttir, Úlfar Viktor Björnsson, Valgerður Ingólfsdóttir

Starfsnemar leikstjóra: Karla Aníta Kristjánsdóttir og Halldór Ívar Stefánsson

Starfsnemi búningahönnuðar: Álfgrímur Aðalsteinsson

Eftirfarandi lög eru flutt í sýningunni

Bergjum blikandi vín - Lag / Texti: Marz bræður / Jón Sigurðsson

Hún er svo sæt - Lag / Texti: Þorvaldur Halldórsson / Ómar Ragnarsson

Í rökkurró - Erlent dægurlag / Texti: Jón Sigurðsson

Það sem ekki má - Lag / Texti: Jón Múli Árnason / Jónas Árnason

Splende Il Sole - Ítalskt dægurlag / Texti Pálmar Ólason

Auk þess eru leikin brot úr tónlist frá:

Christobal og Matthew Herbert

Myndatökur fyrir plaköt

Saga Sigurðardóttir

Sérstakar þakkir

Eva Signý Berger

Ásta Kristín Benediktsdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir

Hörður Torfason

Kvikmyndasafn Íslands

Leikskrá

Ritstjórn: Maríanna Clara Lúthersdóttir

Útgefandi: Leikfélag Reykjavíkur

Leikhússtjóri: Brynhildur Guðjónsdóttir

Ljósmyndun: Íris Dögg Einarsdóttir

Listrænir stjórnendur, ásamt starfsnemum, sýningarinnar Ungfrú ísland í Borgarleikhúsinu.

"Það eru margar raddir í heiminum og engin þeirra án merkingar"

Viðtal

Þurfa konur að velja? Viðtal við Grétu Kristínu leikstjóra
Lesa meira

"Ég þarf að komast upp á Stýrimannastíg að skrifa, svo orðin hverfi ekki, svo heimurinn minnki ekki."

Hekla Gottskálksdóttir

Það er eng­inn að bíða eft­ir skáld­sögu eft­ir Heklu Gott­skálks­dótt­ur

Soffía Auður Birgisdóttir

Íris Tanja Flygenring og Hjörtur Jóhann Jónsson í hlutverkum Heklu og Starkaðs í Ungfrú Ísland í Borgarleikhúsinu.

Þegar Hekla Gottskálksdóttir heldur rúmlega tvítug að aldri úr sveitinni sinni til höfuðborgarinnar ber hún draum í brjósti; hún þráir að skrifa skáldskap. Rútuferðin úr Dölunum til Reykjavíkur tekur átta klukkustundir og á því ferðalagi dregur höfundur upp lifandi mynd af því sem fyrir augu aðalpersónunnar ber; mynd af samfélagi sem Íslendingar fæddir fyrir miðja síðustu öld þekkja en nú er að miklu leyti horfin. Hekla lætur hugann reika á milli þess sem hún les í Ulysses eftir James Joyce og tvær myndir af skáldum lifna fyrir hugskotssjónum hennar. „Bjó ekki skáldkona á þessum bæ?" spyr hún sig þegar rútan ekur yfir straumþunga á: „Niðaði ekki einmitt í æðum hennar þessi kolgráa, straumþunga á, full af sandi og leðju. Það bitnaði á kúnum, sagði fólk, því þegar hún sat við að skrifa um ástarlíf og harmræn örlög sveitunga sinna, upptekin við að breyta sauðalitum í sólarlag á Breiðafirði, gleymdi hún að mjólka." Og Hekla hugleiðir örlög skáldkonunnar:

Það var svo, mikið óyndi í henni að eitt ljósbjart vorkvöldið hvarf hún ofan í silfurgráan hylinn í ánni [...] Hún fannst í silungsneti við brúna, vængstýft skáld var dregið á land gegnsósa pils, með lykkjufall á sokknum, maginn fullur af vatni. - Hún eyðilagði netið, sagði bóndinn sem átti lögnina. Ég lagði fyrir silung en möskvarnir voru ekki gerðir fyrir skáldkonu.

Örlög hennar voru í senn víti til varnaðar og eina fyrirmynd mín að kvenkynsrithöfundi. Annars voru skáld karlkyns. Ég lærði af því að segja engum hvað ég hugðist fyrir.

Hinni skáldamyndinni bregður fyrir þegar rútan ekur framhjá afleggjaranum upp í Mosfellsdal og vísar að sjálfsögðu til Nóbelskáldsins sem keyrir um á „Buick, fjögurra dyra, árgerð 1954" með „firnagóðu fjaðrarkerfi og öflugri miðstöð" eða á grænum Lincoln, eins og þar segir. Ólík eru hlutskipti kvenskálda og karlskálda á þeim tímum sem Hekla lifir og hún harmar skort á fyrirmyndum.

Hekla er fædd á fimmta áratug tuttugustu aldar, á tíma þegar íslenskar skáldkonur voru sannarlega til en voru svo til ósýnilegar í umræðu um bókmenntir og listir. Þær sem létu mótlætið ekki stöðva sig og sendu frá sér fjölda bóka og nutu jafnvel vinsælda hjá almenningi - sé tekið mið af útlánstölum bókasafna - voru hundsaðar af bókmenntapáfum og um verk þeirra höfð niðrandi orð: „Kellingabókmenntir." Enn í dag er umræðan jafnvel á þann veg að það er líkast því að engir kvenrithöfundar hafi komið fram á sjónarsviðið fyrr en á sjöunda áratugnum með höfundum á borð við Ástu Sigurðardóttur, Jakobínu Sigurðardóttur og Svövu Jakobsdóttur. Kynslóðir þeirra skrifandi kvenna sem komu á undan þeim, Ragnheiður Jónsdóttir, Þórunn Elfa Magnúsdóttir og Oddný Guðmundsdóttir - svo fáeinar séu nefndar - virðast gleymdar og grafnar.

Ungfrú Ísland. Borgarleikhúsið

Hekla Gottskálksdóttir er fulltrúi þessara týndu kvenrithöfunda. það er athyglisvert að höfundur dregur upp hliðstæðu með skriftar- og sköpunarþrá hennar og samkynhneigðri þrá besta vinar hennar, Davíðs Jóns John Stefánssonar Johnsson. Þau trúa hvort öðru fyrir sínum dýpstu leyndarmálum:

Þá segi ég honum það. Að ég skrifi. Á hverjum degi.

[...]

Á móti trúði fallegasti strákurinn í Dölunum mér fyrir því að hann elskaði stráka. Við geymum leyndarmál hvors annars. Það er jafngilt.

Og höfundur dregur upp aðra hliðstæðu í mynd Íseyjar, bestu vinkonu Heklu, sem ber sama draum í brjósti en fær honum ekki fullnægt því skyldan yfirvinnur sköpunarþrána í hennar tilviki. Við fáum djúpa innsýn inn í drauma og þrá Íseyjar og þær skorður sem henni eru settar í hlutverki sínu sem eiginkona og móðir. Hún er skáld - líkt og Hekla - en ólíkt Heklu nærir hún ekki meðvitað með sér drauma um að þroska þá gáfu sína, hún getur bara ekki annað því allt verður henni að texta eða ljóði; hún er búin að skrifa sögu, leikrit, ljóð áður en hún veit af. Hún skrifar í dagbók sem hún felur í skúringarfötunni fyrir eiginmanninum, sem „myndi ekki skilja að ég eyddi tíma í að skrifa um það sem er ekki eða um það sem er liðið."

Baráttan sem Ísey heyr við sköpunarþrána er báráttan sem stígur fram í skrifum ótal íslenskra kvenna allt frá því að þær stíga sín fyrstu spor á ritvellinum á síðari hluta nítjándu aldar og fram yfir miðja tuttugustu öld. Þótt þrá Íseyjar endurspegli þrá Heklu er munurinn sá að Hekla er ekki fangi aðstæðna sinna, líkt og Ísey, og hún er staðráðin í að láta ekki hlutskipti sitt beygja sig og fetar þá slóð sem hún þráir þótt leiðin sé grýtt og samfélagið hafi meiri áhuga á líkama hennar en anda. Hekla heldur sínu striki jafnvel þótt hún fái verk sín ekki útgefin og „enginn [sé] að bíða eftir skáldsögu eftir Heklu Gottskálksdóttur," eins og segir á einum stað.

Birna Pétursdóttir og Haraldur Ari Stefánsson í hlutverkum Íseyjar og Lýðs í Ungfrú Ísland í Borgarleikhúsinu.

Hekla les og skrifar allar sínar lausu stundir, hún upplifir umhverfi sitt á skapandi hátt, skynjar Fegurðina - með stórum staf. En til að koma þeirri Fegurð á framfæri þarf Hekla að grípa til ráðs sem margar skáldkonur fyrri tíma þurftu að nota til að koma verkum sínum á framfæri; að fá bók sína útgefna undir dulnefni karlmanns. Þannig lýkur skáldsögunni Ungfrú Ísland og hvort Hekla sigrar eða tapar í baráttu sinni fyrir að fá að skrifa verður hver lesandi að gera upp við sig. Það er þó ljóst að hún lifir draum sinn, að minnsta kostir að einhverju leyti: Skapar heima og miðlar fegurð - þótt sjálf sé hún ósýnileg:

Ég held á tónsprotanum. Ég get kveikt á stjörnu á svartri hvelfingunni. Ég get líka slökkt á henni. Heimurinn er mín uppfinning.

Það liggur beinast við að líkja frásagnarhætti Auðar Övu í þessari bók við blundandi eldfjall. Frásögnin er yfirveguð, róleg á yfirborðinu, virðist áreynslulaus og streymir áfram hnökralaus og heillandi. En ljóst er að undir niðri býr kraumandi eldur, höfundi liggur margt á hjarta, ekki síst staða kvenna og annarra jaðarhópa í samfélagi karlrembu og fordóma. Þá er líka viðeigandi að bókin endi á stuttum kafla með yfirskriftinni „Líkami jarðar" þar sem jarðskjálfti ríður yfir og „opnast hefur rifa á jörðina." Þau jarðumbrot má vafalaust túlka á margskonar máta. Kannski vísa þau til þess að kvika sköpunargáfu Heklu sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið en einnig má geta sér til um að þau kallist á við samfélagsleg umbrot sem eru í farvatninu á síðari hluta tuttugustu aldar, á þeim tíma þegar frásögninni lýkur; umbrot sem áttu eftir að greiða leið íslenskra kvenna inn á vettvang íslenskra bókmennta.

Heim

Listabraut 3

103 Reykjavík

Kt. 420269-6849

Miðasala: 568 8000

midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500

Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is

Miðasalan er opin 12-17 alla virka daga og 12-20 á sýningardögum. 568 8000
jafnlaunavottun 2023-2026

Takk fyrir stuðninginn

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.

reykjavíkurborg logoorkusalan logoölgerðin logo