Leikskrá

Þetta er Laddi

Þetta er Laddi er 722. frumsýning Leikfélags Reykjavíkur

Frumsýning 7. mars á Stóra sviði Borgarleikhússins. Sýningartími er tvær klukkustundir og 45 mínútur. Eitt hlé. Ljósmyndir eru teknar á æfingum og því ekki endanleg heimild um sýninguna.

Leikarar

Ásthildur Úa Sigurðardóttir

Birna Pétursdóttir

Björgvin Franz Gíslason

Halldór Gylfason

Hákon Jóhannesson

Katla Margrét Þorgeirsdóttir

Katrín Halldóra Sigurðardóttir

Laddi

Vala Kristín Eiríksdóttir

Vilhelm Neto

Dansari:

Margrét Erla Maack

Fram koma einnig meðlimir úr kórunum:

Senjóríturnar og Söngfjelagið

Hljómsveit

Jón Ólafsson tónlistarstjóri hefur verið starfandi tónlistarmaður í u.þ.b. fjörutíu ár og komið víða við. Hann er meðlimur í hljómsveitinni Nýdönsk en hefur einnig gefið út þrjár sólóplötur auk þess að semja ógrynni af tónlist fyrir aðra listamenn, leikhús, kvikmyndir og sjónvarp. Hann hefur verið tónlistarstjóri í fjöldamörgum söngleikjum og má þar nefna Mamma Mia!, Rocky Horror, Chicago og Litlu Hryllingsbúðina. Þá er hann þekktur fyrir vinsæla þætti sína um tónlist, bæði í útvarpi, sjónvarpi og á sviði. Jón hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir tónlist sína.

Friðrik Sturluson hefur verið í tónlistarbransanum í hundrað ár, hóf að spila á sveitaböllum 12 ára gamall, en er líklega þekktastur sem bassaleikari hljómsveitarinnar Sálin hans Jóns míns. Hann stundaði píanó,- raf- og kontrabassa-nám í Tónlistarskóla FÍH og trompet-nám í Tónlistarskóla Reykjavíkur um tíma. Friðrik hefur spilað í fjölmörgum söngleikjum í gegnum tíðina og má þar nefna Litlu hryllingsbúðina, Sól og Mána, Hárið, Footloose, Shakespeare verður ástfanginn og Mamma Mia!. 

Ólafur Hólm útskrifaðist úr Tónlistarskóla FÍH árið 1992. Hann er þekktastur fyrir trommuleik sinn með hljómsveitinni Nýdönsk. Ólafur hefur tekið þátt í fjölmörgum söngleikjum og ber þar helst að nefna Gauragang, Grease, Rent, Dýrin í Hálsaskógi, Hárið, Vesalingana, Mamma Mia!, Matthildi, Emil í Kattholti og Kardimommubæinn.

Stefán Már Magnússon hefur haft tónlist að sínu aðalstarfi síðan 1999. Hann hefur komið að fjöldamörgum sýningum frá árinu 2000, m.a. hjá Leikfélagi Íslands, Leikfélagi Reykjavíkur og Þjóðleikhúsinu. Meðal verkefna hans í Borgarleikhúsinu má nefna Fólkið í blokkinni, Gauragang, Fjölskylduna, Línu Langsokk, Mamma Mia! og Eitraða litla pillu. Stefán hefur að auki samið tónlist fyrir leikhús, kvikmyndir og auglýsingar.

Höfundur og leikstjórn

Ólafur Egill Egilsson útskrifaðist frá leiklistarbraut LHÍ árið 2002. Hann hefur starfað við öll atvinnuleikhús landsins sem og með sjálfstæðum leikhópum. Síðastliðin ár hefur hann starfað jöfnum höndum sem leikari, leikstjóri og handritshöfundur og eftir hann standa nokkrar vinsælustu sýningar Íslandssögunnar. Má þar nefna Elly, sem hann skrifaði ásamt Gísla Erni Garðarssyni, Ástu og Níu líf en í þeim tveimur síðstnefndu sá hann bæði um leikstjórn og handrit. Ólafur hefur einnig getið sér gott orð í sjónvarpi og kvikmyndum þar sem hann hefur starfað bæði fyrir framan og aftan myndavélina. Hann hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín.

Höfundur

Vala Kristín Eiríksdóttir útskrifaðist úr leikaranámi frá Listaháskóla Íslands vorið 2015 og var fastráðin sama ár við Borgarleikhúsið. Meðal nýlegra verka sem Vala hefur leikið í má nefna Allt sem er frábært, Prinsessuleikana og Teprurnar. Hún hlaut Grímuverðlaun sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í Matthildi. Vala er einn framleiðenda, handritshöfunda og leikara í sjónvarpsþáttunum Venjulegt fólk. 

Aðstoðarleikstjóri

Melkorka Gunborg Briansdóttir er nemi á útskriftarári við sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. Hún er einnig með B.A. próf í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og University College London. Melkorka hefur tekið þátt í ýmsum sýningum í sjálfstæðu sviðslistasenunni sem höfundur, meðhöfundur, aðstoðarleikstjóri og leikstjóri, meðal annars í samstarfi við sumarleikhúsið Afturámóti sumarið 2024. Þar að auki hefur hún starfað við dagskrárgerð í útvarpi fyrir Rás 1 og verið með innslög í Lestinni, Tengivagninum og Víðsjá.

Leikmyndahönnun

Eva Signý Berger lærði leikmynda- og búningahönnun við Central Saint Martins College of Art and Design í London og útskrifaðist þaðan árið 2007. Hún hefur hannað leikmyndir og/eða búninga fyrir um 40 sviðsverk, bæði leiksýningar, óperur og dansverk. Af nýlegum verkefnum hennar í Borgarleikhúsinu má nefna Emil í Kattholti, Eitraða litla pillu og Fíasól gefst aldrei upp. Eva hefur hlotið níu tilnefningar til Grímunnar og árið 2019 fór hún sem fulltrúi Íslands á PQ, heimssýningu sviðslistahönnunar í Prag.

Búningar

Guðný Hrund Sigurðardóttir er sjálfstætt starfandi leikmynda og búningahönnuður sem vinnur á mörkum sviðslistar og myndlistar. Hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2006 og árið 2011 útskrifaðist hún frá leikmyndadeild Royal Welsh College of Music and Drama í Cardiff. Eftir útskrift hefur hún unnið í hinum ýmsu verkefnum í sviðslistum bæði á Íslandi sem og Bretlandi. Hún hefur einu sinni tekið þátt í World Stagedesign (2013). Af nýlegum verkefnum Guðnýjar í Borgarleikhúsinu má nefna Kjarval og Góða ferð inn í gömul sár. Hún hefur verið tilnefnd til Grímuverðlaunanna bæði fyrir leikmynd og búninga og hefur hlotið þau tvisvar.

Lýsing

Pálmi Jónsson er fastráðinn ljósahönnuður hjá Borgarleikhúsinu sem starfað hefur víða síðustu ár bæði sem sjálfstætt starfandi hönnuður og fyrir hinar ýmsu lista- og menningarstofnanir. Þá hefur hann hannað sviðsgrafík fyrir viðburði á borð við Söngvakeppni sjónvarpsins og Eurovision. Af nýlegum verkefnum hans í Borgarleikhúsinu má nefna Með Guð í vasanum, Eitraða litla pillu, Fíasól gefst aldrei upp og Ungfrú Ísland.

Danshöfundur

Lee Proud er margverðlaunaður breskur danshöfundur og leikstjóri sem hefur samið dansa og sviðshreyfingar fyrir fjölmargar sýningar á Íslandi undanfarin ár. Hann hefur verið listrænn stjórnandi og danshöfundur Söngvakeppni RÚV frá árinu 2019. Meðal verkefna hans í Borgarleikhúsinu má nefna Mary Poppins, Billy Elliot, Mamma Mia!, Rocky Horror, Matthildi, Níu líf og Emil í Kattholti. Eru þá ótaldar sýningar hans í Þjóðleikhúsinu og hjá Leikfélagi Akureyrar. Lee hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar – þar á meðal Grímuna hér á Íslandi og Reumert-verðlaunin fyrir leikstjórn sína á söngleiknum Kinky Boots í Danmörku.

Hljóðhönnun

Jón Örn Eiríksson útskrifaðist úr hljóðtækni hjá Stúdíó Sýrlandi árið 2020 og er einnig með sveinspróf í rafeindavirkjun. Hann hefur starfað við hljóðvinnu hjá áhugaleikfélögum sem og í atvinnuleikhúsi og víðar, t.a.m. hjá Luxor. Jón Örn hefur starfað hjá Borgarleikhúsinu frá árinu 2021 og hefur m.a. hannað hljóðmynd fyrir leiksýningarnar Bara smástund!, Góða ferð inn í gömul sár, Prinsessuleikana og Ungfrú Ísland.

Elías Geir Óskarsson útskrifaðist úr Hljóðtækni á vegum Stúdíó Sýrlands og Tækniskólans árið 2021 og hefur unnið í Borgarleikhúsinu sem ljósa-, hljóð- og keyrslumaður síðan þá. Hann er stofnmeðlimur, upptökustjóri og pródúsent hljómsveitarinnar Inspector Spacetime sem hefur gert garðinn frægan síðustu ár. Hann hefur gert tónlist fyrir leiksýningar, stuttmyndir og sjónvarpsþætti bæði með Inspector Spacetime og á eigin vegum.

Myndbandagerð

Elmar Þórarinsson hefur starfað sem leikhústæknir hjá Leikfélagi Reykjavíkur síðan 2008. Ásamt því að vinna sem ljósamaður sér Elmar um myndbandsupptökur og heimildagerð á sýningum Borgarleikhússins. Elmar hannaði myndbönd fyrir uppfærslur leikhússins á Helgi Þór rofnar, Emil í Kattholti og Eitruð lítil pilla svo dæmi séu nefnd en hann var tilnefndur til Grímuverðlaunanna fyrir þá fyrstnefndu.

Leikgervi

Elín S. Gísladóttir útskrifaðist úr textíldeild MHÍ árið 1990. Hún hefur starfað við leikgervadeild Borgarleikhússins frá árinu 2005 og haustið 2018 tók hún við sem deildarstjóri leikgervadeildar. Elín hefur starfað við fjöldann allan af sýningum og af nýlegum sýningum má nefna Níu líf, Með Guð í vasanum, Fíasól gefst aldrei upp, Sýslumann Dauðans og Ungfrú Ísland. Elín sinnir einnig listsköpun undir eigin nafni.

Hljóðblöndun

Þórhallur Arnar Vilbergsson

Myndatökur fyrir plaköt

Silja Magg

Er þetta Laddi?

Ein­stök marg­föld­un

Bergur Ebbi

Laddi (Þórhallur Sigurðsson), Vilhelm Neto, í hlutverki Dengsa og Vala Kristín í Þetta er Laddi í Borgarleikhúsinu 2025

Laddi. Fimm bókstafir, stutt og þjált nafn, jafn auðvelt að segja og „mamma“ eða „datt“. Orð sem smábörn geta borið fram. En í þessu stutta nafni er öll sagan. Malarlagðar götur Hafnarfjarðar, stærstu svið leikhúsanna, gleðin, gráminn og allir litir regnbogans. Í aðeins fimm bókstöfum er að finna þróunarsögu lítils samfélags, frá einangrun til beinna útsendinga, heiðan himin og fimm hundruð veðurviðvaranir, lítinn dreyminn dreng og persónugallerí sem fyllt gæti heilu veislusalina.

Það er stundum sagt að það hafi verið böl að vera einangruð þjóð en það hvatti til sköpunar. Fólk varð að skemmta sér sjálft, stytta sér stundir með sögum og leik. Það sama mætti segja um hvern þann sem er einangraður, hvort sem það er út af feimni eða félagslegum aðstæðum. Hann getur annaðhvort gefist upp eða fyllt upp í tómið með sköpun, nýjum röddum, persónum og hugmyndum. Við erum svo fámenn á þessu landi að sum okkar hafa þurft að margfalda sig. En sé ætlunin að margfalda sig þá er best að grunneintakið sé ríkt að gæðum.

Sem persóna er Laddi einhver sá allra hógværasti. Vinalegt andlit hans gæti verið eitt af andlitunum á ættarmóti eða fermingarveislu. Andlit sem skiptir máli, en maður man ekki hvers vegna. Andlit úr sveitinni eða horfnum heimi, fjarskyldur frændi, hlýleg áminning um það hversu tengd við erum.

Laddi, Þórhallur Sigurðsson. Þetta er Laddi. Borgarleikhúsið 2025

Hjá listamanninum Ladda er allt annað uppi á teningnum. Laddi er jökulfljót í leysingum. Ekki vegna þess að sumar persónur hans eru með læti eða ýktar, heldur vegna þess að sem listamaður notast hann við margvísleg listform sem sífellt flæða ofan í farvegi hvers annars. Laddi er grínisti og grínistinn þarf að flæða milli listforma. Grínið er taktur, tónfall, myndir og áferð. Grínistinn þarf að sprengja upp aðstæður en líka að ramma þær inn. Það er því varla tilviljun að Laddi hóf feril sinn sem tónlistarmaður og á nú í seinni tíð að baki vel heppnaðar málverkasýningar. Tónlistin og myndlistin eru samlokubrauðin utan um leiklistina. Grínistinn þarf að geta gert smávegis af flestu og í tilfelli Ladda getur hann gert heilan helling af öllu!

Grínistinn þarf að fanga harminn en hann má samt ekki hvíla í honum. Grínistinn þarf að fá fólk til að hugsa en líka að fá fólk til að hætta að hugsa. „Maðurinn er alltaf einn,“ hefur verið sagt vera hlutskipti manneskjunnar í nútímanum. Það eru allavega örlög grínistans. Til að sinna hlutverki sínu þarf grínistinn að standa fyrir utan, horfa inn um gluggana á hitt fólkið, sjá aðeins varir þess hreyfast en heyra engin orð. Grínistinn þarf að skynja aðstæður úr fjarlægð, lesa í göngulag, líkamsstöðu, skvaldur og áferðir. Þeir eru fáir leikararnir sem eru þýðari og ljúfari í samvinnu en Laddi. Hann kann að skapa með öðrum. En grínið er harður húsbóndi og sá sem úthýsir einmanaleikanum getur aldrei margfaldað sig.

Þorrablóts lykt. Glaumur og karlmannsraddir. Skrækir og rokur innan úr sal. Gufumettað eldhús. Kokkur með fjarræn augu sýgur sígarettu í gegnum glufu á bakdyrum. Kona með gerviaugnahár út á kinn. Grínisti! Þú ert næstur á svið! En fyrst er löng ræða. Grínisti! Þú ert næstur á svið! En fyrst er eitt lag frá hljómsveitinni. Grínisti! Þú ert næstur á svið. Núna er það alvöru! Grínisti! Drífðu þig, salurinn er trylltur. Grínisti! Grettu þig! Grínisti! Gaulaðu! Það verður að vera gaman! „Mach Schau“ var sagt við Bítlana í Hamborg. Grínisti! Þú þarft að búa til sýningu, tíndu eitthvað úr skrítna hausnum á þér og láttu fólk hlæja! Takk fyrir okkur. Svo bíltúrinn heim. Aftur aleinn með skrítna hausnum sínum.

Hláturinn lengir lífið. Þetta er fyndin staðhæfing. Er maður ekki að stytta sér stundir? Þetta hefur allavega allt liðið eins og einn stór dýrðarbjarmi. Blóðmör, brilljantín, skeljasands steinuð hús í rigningu, rokkabillí, verstöðin, herstöðin, hott hott á hesti, Halli, Saxi, Skúli. Sandalar, barstólar, menn sem spila snóker og hverfa inn í leðurjakka sína, myrkrið, meikið og allir bíltúrarnir heim. Við erum mörg hver ólík í þessu samfélagi og við búum við ólíkar aðstæður. Sum eru rík, önnur fátæk. En einu sinni á ári fá allir sama skammtinn þegar sömu snjókorn falla, á allt og alla. Andinn, Eiki, Kjartan, Elsa, Brakúla og allt miðaldra skrifstofufólkið sem fær hlýtt í hjartað og tár í augun horfandi á Disney-myndir með börnum sínum. Þvílík rödd, þvílíkur leikur og taumlaus hughrif. Bara fimm bókstafir en heilt haf áferðar og lita. Heilt úthaf hugmynda, einstakur margfaldaður maður.

Og nú er hann mættur aftur með stóra sýningu sem þjóðin mætir á. Þessir fimm bókstafir. Hvað er hann aftur gamall núna? Sextugur? Sjötugur? Meira? Skiptir það máli? „Hættu að telja, þett‘er ég!“ Það er alveg hárétt hjá kúrekanum. Við þurfum ekkert að telja. Það er bara einn Laddi.

Laddi (Þórhalldur Sigurðsson) í hlutverki Skúla rafvirkja í Þetta er Laddi. Borgarleikhúsið 2025

Laddi (Þórhallur Sigurðsson) ásamt fl. í Þetta er Laddi. Borgarleikhúsið 2025. Á myndinni er texti við lagið Súperman
Aðrir aðstandendur

Sýningarstjórn: Pála Kristjánsdóttir

Hljóðkeyrsla: Bjarni Antonsson og

Elías Geir Óskarsson

Hljóð á sviði: Andrés Þór Þorvarðsson, Eygló Höskuldsdóttir Viborg og

Hjörtur Andri Hjartarson

Ljósakeyrsla: Kristinn Snær Sigurðsson,

Magnús Thorlacius og Jón Heiðar Þorkelsson

Eltiljós: Ágúst Wigum, Óskar Gíslason, Sigrún Ásta Halldórsdóttir,

Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir, Stefán Daði Karelsson,

Steiney Lilja Einarsdóttir og Þorgerður Þorkelsdóttir

Sviðsmenn: Guðni Gunnarsson, Haukur Hildarson,

Hlynur Sævar Franzson og Guðberg Hrafnsson

Flugtölva: Máni Þorgilsson

Auk þess: Laufey Haraldsdóttir, Hjörtur Andri Hjartarson

og Arnar Leó Helgason

Leikmunaverðir: Sirrý Fjóla Þórarinsdóttir og

Sólrún María Jóhannsdóttir

Aðstoð við leikmyndagerð: Ásdís Hanna Gunnhildar Guðnadóttir - málari,

Gabríel Backman Waltersson - smiður, Hildur Magnúsardóttir Eirúnardóttir - smiður, Lotta Palenius - smiður, Melkorka Embla Hjartardóttir - smiður, Jón Svavar Jósefsson - smiður, Þórunn Kolbeinsdóttir - smiður og Ævar Uggason - smiður

Aðstoð við leikmunagerð: Helga Rut Einarsdóttir og Sigrún Halla Ásgeirsdóttir

Aðstoð við búningagerð: Helga Lúðvíksdóttir, Lella Arge og Geirþrúður Einarsdóttir

Búningar Margrétar Erlu Maack: STONED By Ava Gold

Dresser: Andrea Ösp Karelsdóttir og Diljá Pétursdóttir

Leikgervi: Andrea Ruth Andrésdóttir, Birgitta Rut Bjarnadóttir, Elsa Þuríður Þórisdóttir, Fríða Valdís Bárðardóttir, Guðbjörg Ívarsdóttir, Hildur Emilsdóttir, Íris Lorange Káradóttir, Katrín Erla Friðriksdóttir, Kristín Elísabet Kristínardóttir, Sara Friðgeirsdóttir, Sigurveig Grétarsdóttir, Snædís Birta Ásgeirsdóttir, Úlfar Viktor Björnsson og Valgerður Ingólfsdóttir

Tónlist í sýningunni

Súperman

Lag: Gioca Jouer eftir Claudio Cecchetto

Íslenskur texti: Laddi

Það er fjör

Lag og texti: Laddi

Ég pant spila á gítar

Lag og texti: Laddi

Tarzan apabróðir

Lag: Erlent

Íslenskur texti: Laddi

Freknótta, fótstutta mær

Lag: Erlent

Íslenskur texti: Laddi

Glámur og Skrámur í Sælgætislandi

Lag: Ragnhildur Gísladóttir

Texti: Andrés Indriðason

Royi Roggers

Lag: Erlent

Íslenskur texti: Halli og Laddi

Tvær úr tungunum

Lag: Ricochet Romance eftir Larry Coleman, Joe Darion og Norman Gimbel

Texti: Halli og Laddi

Stórpönkarinn

Lagi og texti: Laddi

Mamma og ég

Lag og texti: Laddi

Skammastu þín svo

Lag: Shaddap Your Face eftir Joe Dolce

Texti: Laddi

Sérstakar þakkir

Haraldur Sigurðsson

Sigríður Ruth Thorarensen

Egill Eðvarsson

Björn Emilsson

Ragna Fossberg

Gunnar H. Baldursson

Gísli Rúnar Jónsson

Edda Björgvinsdóttir

Sigurður Davíð Þór Guðmundsson

Olga Maggý Winther

Ísak Hinriksson

Jón Ársæll Þórðarson

Eva Pot

Steingrímur Jón Þórðarson

Stöð 2

Safndeild RÚV

Gunnar V. Andrésson

Þórhallur Þórhallsson

Nói Síríus

Leikskrá

Ritstjórn: Maríanna Clara Lúthersdóttir

Útgefandi: Leikfélag Reykjavíkur

Leikhússtjóri: Brynhildur Guðjónsdóttir

Ljósmyndun: Hörður Sveinsson

Listrænir stjórnendur sýningarinnar Þetta er Laddi í Borgarleikhúsinu.
Heim

Listabraut 3

103 Reykjavík

Kt. 420269-6849

Miðasala: 568 8000

midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500

Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is

Miðasalan er opin 12-17 alla virka daga og 12-20 á sýningardögum. 568 8000
jafnlaunavottun 2023-2026

Takk fyrir stuðninginn

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.

reykjavíkurborg logo
orkusalan logoölgerðin logo