Heim
Leita

Köttur á heitu blikkþaki

Viðtal við Ásthildi Úu Sigurðardóttur og Sigurð Ingvarsson

Þau Ásthildur Úa Sigurðardóttir og Sigurður Ingvarsson fara með margfræg hlutverk Maggie og Brick í nýrri uppfærslu á Ketti á heitu blikkþaki undir leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar. Þau gerðu sér ferð inn á skrifstofu leikhússins til að ræða hlutverkin og verkið við Maríönnu Clöru Lúthersdóttur.

MCL

Þekktuð þið eitthvað til Tennessee Williams áður en æfingar byrjuðu?

ÁÚ

Ekki þetta verk, en Sporvagninn Girnd algjörlega, þekki það og hef séð það. En nei, ekki þetta verk.

SI

Nei, ég þekkti einmitt bara Sporvagninn Girnd og hef séð eitthvað úr Glerdýrunum líka, mjög flott.

MCL
Það er áhugavert því þetta verk er ekki síður þekkt en Sporvagninn sem hefur verið sett upp nokkrum sinnum hér á Íslandi en Köttur á heitu blikkþaki hefur bara verið sett upp einu sinni í atvinnuleikhúsi á Íslandi – í Þjóðleikhúsinu þegar Margrét Vilhjálms og Baltasar Kormákur léku Maggie og Brick.

ÁÚ

Já, ég hélt einmitt að þetta verk væri mun sjaldnar sett upp almennt – en það er alls ekki þannig!

MCL

Nei, þetta er eitt af vinsælustu verkum Tennessee Williams.

ÁÚ

Sem mér finnst ekki skrítið.

SI

Svo er auðvitað bíómyndin með Elizabeth Taylor og Paul Newman – ég er alltaf á leiðinni að sjá hana – ég ætlaði einmitt að horfa á hana í morgun!

MCL

Úa, nú ert þú nýbúin að leika titilhlutverkið í Lúnu, verki eftir Tyrfing Tyrfingsson – finnur þú einhverjar tengingu hér á milli? Ég spyr bara af því mér finnst persónulega Tyrfingur vera svona okkar Tennessee Williams. Tyrfingur skrifar líka um ótrúlega brotnar fjölskyldur, undirliggjandi hinseginleika og svona rosalega breyskar manneskjur, jafnvel hræðilegar, en samt þessi djúpi strengur svo maður finnur svo til með þeim.

ÁÚ

Jú, þegar þú segir það, allt sem þú ert að nefna, það rímar. Líka bara með Lúnu – bæði Lúna og Maggie – það er svo mikið af flóknum tilfinningum í gangi á sama tíma og manneskjan er svolítið óútreiknanleg með þeim tilfinningum. Maður veit ekki alveg í hvaða áttir þær fara – og þær vita það kannski ekki alveg sjálfar. Líka bara þemu eins og að geta ekki eignast börn – þemað hér er að vissu leyti það sama þótt ástæðan sé ekki sú sama. Það eru einhver sár!

SI

Og skömm!

ÁÚ

Já! En það sem ég upplifi svo sterkt í bæði Lúnu og Maggie er þessi ofboðslegi sársauki sem öskrar á mann í gegnum persónurnar.

MCL
Og kallar kannski einhverja grimmd fram í þeim sem hafði ekki endilega verið þar áður? Sársaukinn gerir þær grimmar.

ÁÚ

Já, lífið er búið að ýta þeim þangað. Þær eru að berjast fyrir lífi sínu - en það bitnar á öðrum í kringum þær. Þannig að já, ég sé þessa tengingu algjörlega.

SI

Báðir frábærir höfundar!

ÁÚ

Og byrja báðir á T! Það er auðvitað aðalatriðið! (þau veltast um af hlátri).

MCL

Köttur á heitu blikkþaki er auðvitað hádramatískt verk en það er samt heilmikill húmor og léttleiki þarna líka. Er það eitthvað sem ykkur finnst gaman að leita að? Eða er bara best að kasta sér inn í dramað?

ÁÚ

Nei, það er rosalega gott að hafa húmor og léttleika – það ýtir líka einhvern veginn undir sársaukann. Það verður allt miklu sárara ef það er líka húmor – þau verða svo miklar manneskjur – af því maður skilur hvernig þau reyna að lifa af í gegnum húmor.

SI

Já, mér finnst þetta bara drepfyndið verk – í alvörunni – og það er skemmtilegast að nálgast drama út frá einhverju gríni – og öfugt – nálgast grín út frá drama. Í grunninn er þetta nefnilega svo – svipað! Kallast líka gífurlega á við Anton Tsjekhov, verk hans – þótt þau gerist á miklu lengra tímabili- og Tsjekhov kallar öll verk sín gamanleiki.

MCL

Já, mig minnir að hann hafi sagt að þegar harmur þinn er þér sjálfum að kenna þá sé það ekki lengur harmleikur heldur gamanleikur. Og persónurnar eru sjálfum sér verst!

SI

Já, þau eru það – og allir vorkenna sjálfum sér svo mikið. Allir sínir eigin verstu óvinir.

MCL

Sem er kómískt í sjálfu sér. Í Grísku harmleikjunum þá eru örlögin fyrirfram búinn að ákveða að allt fari illa, það er óumflýjanlegt – guðirnir leika sér að mönnunum – þótt þeir beri einhverja sök sjálfir. En þetta er guðlaus heimur, hér eru það persónurnar sjálfar sem bera ábyrgð.

ÁÚ

Það er náttúrulega það sem er svo erfitt – líka í lífinu – að horfast í augu við að þú stendur í þeim sporum sem þú markar þér sjálfur. Það er bara það erfiðasta við að vera manneskja held ég.

MCL

En þið hafið ekki unnið áður með Þorleifi?

ÁÚ/SI

Nei!

MCL

Hann vinnur oft öðruvísi en margir leikstjórar – er ekki gaman að kynnast aðferðum hans?

SI

Jú, algjörlega en svo vinnur hann held ég allt öðruvísi núna en hann hefur verið að gera!

ÁÚ

Einmitt – maður veit það náttúrulega ekki – en mér heyrist það. En það gengur mjög vel og rímar vel við okkur hópinn og bara búið að vera í rosa góðu flæði – frá byrjun.

SI

Mjög góðu flæði á öllum póstum.

MCL

Þorleifur brýtur gjarnan upp handritin sem hann vinnur með og kastar þeim jafnvel í heilu og hálfu lagi en hér er hann mjög markvisst að vinna með þetta sígilda verk.

ÁÚ

Já, ég held að það sé munurinn.

SI
Já, það virkar líka svo ótrúlega vel fyrir hans persónuleika – af því hann er svo spontant og hugmyndaríkur – ég held þetta sé frábær blanda þegar hann vinnur með svona formfast verk.

ÁÚ

Þetta er bara svo svakalega gott verk. Þetta er alveg konfektmoli.

SI

Þetta er eiginlega fáránlega gott verk – við erum oft bara gapandi – að þetta skuli vera skrifað í rauntíma þannig að frá því að leikritið hefst og þar til það endar þá sitja áhorfendur í salnum og upplifa á nákvæmlega sama tíma allt sem persónurnar eru að upplifa. Ég bara hef ekki séð þetta takast nokkurn tímann áður – þetta er alveg ótrúlegt og svo er alltaf farið í hæsta dramatíska punkt. Maður fær ekki leið á þessu.

MCL

Þetta er það sem grísku leikskáldin hefðu kallað hið fullkomna verk – sem gerist allt á sama stað og á sama tíma! En það er mjög sjaldan sem það gengur vel upp.

SI

Ja, ég er bara gáttaður á þessu. Og þetta eru bara þrjár senur í rauninni – tvær tveggja manna senur og svo uppgjörssena með öllum – og þær eru ótrúlega langar svo fyrst þegar maður les þetta þá hugsar maður bara „nei, hvað er í gangi, af hverju er þetta svona langt!“ en svo er þetta ekkert langt!

MCL

Nei, þetta er ekkert langt af því hann er búinn að tímasetja allar tilfinningar og allt sem gerist þannig að maður situr bara á sætisbrúninni.

ÁÚ

Þetta er nefnilega þannig. Þetta er svo ríkt verk.

MCL

Er ekki gaman fyrir ykkur, sem leikara, að takast á við eitthvað svona? Vel skrifaða klassík?

ÁÚ

Jú, það bara gerist ekki mikið betra. Þetta er alveg þannig. Þetta er lúxus hlutverk og lúxus aðstaða að fá að vera í svona.

SI

Jú, þetta er bara draumur!

Heim

Listabraut 3

103 Reykjavík

Kt. 420269-6849

Miðasala: 568 8000

midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500

Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is

Miðasalan er opin 12-17 alla virka daga og 12-20 á sýningardögum. 568 8000
jafnlaunavottun 2023-2026

Takk fyrir stuðninginn

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.

reykjavíkurborg logoorkusalan logoölgerðin logo