Heim
Leita

Ungfrú Ísland

Þurfa konur að velja?

Birna Pétursdóttir í hlutverki Íseyjar í Ungfrú Ísland í Borgarleikhúsinu.

Gréta Kristín Ómarsdóttir, leikstjóri sýningarinnar settist niður með Maríönnu Clöru Lúthersdóttur til að ræða sýninguna og hvaðan hún sprettur – bæði hugmyndafræðilega og persónulega.

MCL: Hvað var það við söguna sem heillaði þig upphaflega?

GKÓ:

Það er einhver stíll sem Auður hefur, það er svolítið erfitt að koma því í orð en það var einhver tilfinning fyrir sterkri undiröldu sem greip mig. Ég náttúrulega las bókina þegar hún kom út en þarna fór ég að kafa í hana og þetta er líka persónulegt. Ég bara tengi fast við svo margt - eins og í gegnum mitt fólk - amma mín er t.d. jafngömul aðalpersónum sögunnar og er, eins og þær Hekla og Ísey, alþýðustúlka utan að landi. Amma hefur unnið eins og hestur alla sína ævi, alltaf í minnst þremur störfum, með sex börn og rekið heimili, saumað fötin á alla ábúendur og eldað ofan í alla vinnuflokka á Norðurlandi eystra. Alltaf sagt: Amma sefur bara á jóladag. Og allt tip top - en amma mín er svo listræn og næm og hefur alltaf verið að skrifa, ljóð og kvæði. Hún er mikill ræðurmaður og dúndrandi húmoristi - en listin fékk aldrei að vera ofan á í hennar lífi, bara vegna aðstæðna. Eina menntunin sem stóð henni til boða var að fara í Húsmæðraskólann. Við eigum mjög gott og náið samband og höfum oft talað um þetta - hvað ef hún hefði ... Ekki það, hún er stórkostleg húsmóðir, fræg fyrir matargerð og bakkelsi sem Hríseyingar hlakka allt árið til þess að versla í kvenfélagstjaldinu á okkar árlegu hátíð. Svo ég tengdi þarna við þessa stöðu konunnar sem birtist í bók Auðar, þar sem hvort tveggja er satt í einu - amma mín á gott líf og elskar líka líf sitt og elskar börnin sín!

MCL

Eins og Ísey. Hún er ekki að ljúga þegar hún segist elska Lýð og barnið sitt.

GKÓ

Einmitt - og þessi kynslóð er auðvitað stolt yfir sínu lífi og það er ríkt og fullt líf. En maður hugsar oft - hvað ef? Hvað ef amma mín hefði fæðst aðeins seinna - og hvað ef þau hefðu haft aðeins meira á milli handanna - ef að aðstæður hefðu verið öðruvísi? Það er þetta „double bind" - hvar standa húsmæður og þeirra snilld í stigveldi samfélagsins - versus karlmennirnir sem eru meistarar bara fyrir það að draga andann? Ég hef sjálf valið það, alla vega í bili, að eiga ekki börn og lifa í listinni - og ég tengi fast við það sem vinkonurnar í sögunni fara í gegnum í sínu vinasambandi: Þær eru tveir krakkar sem ætla að sigra heiminn saman, en svo verður einhver óléttur og allt breytist.

Ja, miðað við árið 1963 þá má segja að núna sé þessi kvöð um að við þurfum að velja komin lengra inn í líkama okkar sjálfra – þessi kvöð um að við þurfum að velja milli þess hvort við ætlum að stofna til fjölskyldu eða stofna til ferils. Það er svo afhjúpandi hvernig þetta birtist í samböndum okkar – í vinasamböndum og í fjölskyldu – væntingar og kvaðir sem við erum ómeðvitað með innra með okkur. Ég tengdi svo mikið við þær Heklu og Íseyju af því þær eru báðar að varpa á hvor aðra einhverju sem er kannski ekkert endilega þeirra eigin sannfæring.

MCL

Bara þessi fallega sena:

Ísey: Ég er ófrísk!

Hekla: Til hamingju!

Ísey: Ég vissi að þú myndir taka þessu svona!

GKÓ

Einmitt! „Ég veit þér finnst ég ekki lifa spennandi lífi“ Og Ísey dæmir líka Heklu – „Þú verður að velja!“ Það verður svo djúsí og dramatískt og mig langaði svo mikið til að þýða það yfir á sviðið og ýta undir það.

Það er líka einhver „otherness“ í Heklu – hún er á skjön við samfélagið og ég tengi svo djúpt við baráttu hennar – baráttu sem hún er kannski ómeðvituð um, baráttu um pláss til þess að vera meira en eitthvað eitt. Að þú getir verið „bæði" og það er kannski spurningin sem mig langaði til að spyrja. Getur kona verið bæði – getur hún verið bæði listamaður og kona – getur kona „átt kærasta" og skrifað bækur, verið kynvera og listamaður - móðir og listamaður? Svo er náttúrulega líka Jón John – og persónulega tengi ég líka við hans baráttu.

MCL

Og samband þeirra Jón Johns og Heklu sem er svo náið og fallegt þótt það verði aldrei hefðbundið hjónaband – það er smá tabú að skoða það líka en það er líka fallegt af því þau eru ákveðnir sálufélagar.

GKÓ

Já og það er svo tragískt – það er svo brilliant hjá Auði – það er þessi þversögn sem er innra með þeim öllum sem mig langaði svo til að draga fram. Það er bæði stórkostlegt og hræðilegt að þau þurfi að gifta sig til þess að frelsa hvort annað. Lifa í lygi til þess að fá að vera í sínum sannleika – allar þessar þversagnir sem eru svo áhugaverðar í sérstaklega þessum fjórum aðalpersónum, Heklu, Íseyju, Jóni John og Starkaði. Það er það sem mig langaði að dramatísera á sviðinu. Verkefnið varðandi Jón John var að skoða þennan tíma og finna heimildir um hvernig raunverulega var að vera hommi í Reykjavík árið 1963. Það er ákveðið gat í sögunni og í sagnfræðiheimildum frá þessum tíma, eftir stríð. Í stríðinu breyttist svo mikið - uppgangur fasisma - eins og er að gerast núna líka - þá var hinsegin fólk að einhverju leyti krotað út. Í Norður- og Mið-Evrópu var blómstrandi hinsegin kúltúr sem var brenndur til grunna í Seinni heimstyrjöldinni og hverfur - það hverfur alls konar arfleifð og sögur sem spretta í rauninni ekki upp fyrr en með HIV faraldrinum. Á Íslandi eru svo til ennþá færri heimildir – sérstaklega um þennan tíma – við vitum nánast ekki neitt – fyrr en upp úr 1980 - um tilveru hinsegin fólks.

En það var kannski það sem kveikti í mér – þessi undirliggjandi saga samfélagsins – svipmyndir af samfélaginu sem Auður dregur upp, tilfinningar um það sem við í raun vitum ekki – með því að halla sér inn í þessa períódu, með því að styðja sig við sagnfræði. En auðvitað er þetta hvorugt – bókin eða sýningin – heimildaritgerðir – þetta eru listaverk og við erum ekki að reyna að vera nákvæm sagnfræðilega – við tökum okkur alls konar leyfi. En það verður alltaf einhvers konar spegill fyrir okkur að horfa aftur í tímann. Það er þessi undirliggjandi alda sem mér fannst vera í bókinni – svo ótrúlega klókt af Auði að velja akkúrat þetta ár sem er svo viðburðaríkt ár – það gerist rosalega margt árið 1963 – þetta er einhvern veginn í skjálftahrinunni fyrir stóra sprengingu. Á barmi byltinga – rétt áður en alls konar fer í gang – kvenréttindabarátta og mannréttindabarátta svartra í Bandaríkjunum – þetta er rétt áður og maður finnur titringinn undir öllu. Og við sem áhorfendur vitum hvað er að fara að koma – og við vitum meira en persónurnar og það hefur líka verið skemmtileg áskorun og verkefni fyrir okkur í leikhópnum – því ég vildi alls ekki „pathologisa" fortíðina – friðþægja okkur með því að segja „Sjáiði hvað allt var hræðilegt í gamla daga en nú er allt svo frábært." Heldur raunverulega stíga inn í hver hugmyndafræðin var þarna og hverjar voru hindranirnar – bæði ytri, samfélagslegar - en líka innra með fólki. Hvaða forsendur hafði fólk þarna til þess að dreyma. Það var svo gott sem að Ásta Kristín og Hafdís Erla sögðu – sem komu til okkar með fræðslu – að fólk á þessum tíma hafði ekki hugmyndaflug til þess að ímynda sér daginn í dag og það er heldur ekki markmið sögunnar – sagan gerist ekki línulega til dagsins í dag og dagurinn í dag er ekki markmið baráttu fortíðarinnar. Það er svolítið það sem við höfum verið að gefa persónunum – og mikið talað um það í æfingaferlinu – að nálgast þetta af heilindum – við erum ekki að taka fortíðina og taka fólk úr fortíðinni og smætta það niður í þægilegar bitastærðir fyrir okkur í dag til þess að blása okkur sjálf út með í samanburði – af því það er líka ákveðin hætta og þá erum við að nota söguna til að friðþægja okkur. Frekar að sjá pótensinn í períódunni – því þar liggur spurning sem okkur langaði að hrópa: Er þetta breytt? Kannski hefur þetta breyst að forminu til – og að lögun – þessi feðraveldis hugmyndafræði um hvernig við skipum fólki á bása og að karlar eigi að vera svona og konur svona en það hefur mögulega bara stökkbreyst. Og þar liggur kannski mitt sérsvið í kynjafræðinni og hinsegin fræðunum – að sjá hvernig þetta hefur farið inn í vitund okkar. Við erum ekki lengur með lagavald þar sem einhver konungur eða keisari tekur okkur af lífi ef við brjótum reglurnar heldur erum við með lífvald sem hefur færst inn í líkama þegnanna!

MCL

Foucaultskt vald!!

GKÓ

Já, Foucaultskt vald! Þar sem við sjálf viðhöldum valdastrúktúrnum. Þessi konungur eða keisari er innra með okkur sjálfum og fylgist þar með hvort við séum ekki örugglega að fara eftir öllum reglunum. Og þá verður svo augljóst að þetta er manngert – og þá er jafnframt hægt að gera þetta aftur – upp á nýtt. Og hvar er það skýrara en í leikhúsinu, þar sem við búum til veruleikann upp á nýtt, á hverju kvöldi?

MCL

Var eitthvað sem þú varst meðvitað að reyna að forðast í sýningunni – einhverjar gildrur sem þú vildir ekki falla í?

GKÓ

Já að smætta ekki persónur úr fortíðinni – þetta er kynslóð foreldra eða ömmu og afa okkar í hópnum – þetta fólk er ennþá lifandi – og ég vil heiðra sögu þeirra og veruleika. Og sömuleiðis var áskorun að finna leiðina að því hvernig maður fjallar um það sem er í raun rauði þráðurinn í bókinni - sköpunarkrafturinn og fegurðarþráin - sem er mikið tekið hjá okkur á Íslandi - að fjalla um þessi mótív: barátta mannsandans gegn náttúrunni og borgarskipulagi! Við tengjum mikið við þetta því við erum upp til hópa listræn bóka- og menningarþjóð. Ég vildi forðast það að fara inn í melódramatískar klisjur í sviðsetningu á þessari baráttu. Baráttu þessarar ungu listamanna, þeirra fjögurra, við umhverfi sitt. Í rauninni var það bara svona þýðingarmál - Af því maður á þessa upplifun, maður kynnist Heklu prívat þegar maður les bókina en hún er passíf sögupersóna af því að við erum inni í höfðinu á henni og erum að upplifa allt frá hennar sjónarhorni.

MCL

En að raungera hana á sviðinu er flóknara.

GKÓ

Já, og það þurfti ákveðna könnun til að finna röddina hennar, hvað er það sem hún er að skrifa og hvernig er það? Það var í rauninni stóri lykillinn að nálguninni, að raungera og líkamna og gera efnislegt hvernig hún er að skapa. Að sviðsetja sköpunina. Að skáldskapur hennar verður til og það er máttur orðanna og við þurfum að þýða það yfir á sviðstungumál. Og hvernig er þetta ferli „að skrifa" sem skapar heiminn sem við sjáum á sviðinu? Mikil ráðgáta að finna út úr þessu á gólfinu og leysa þetta; er hún að skrifa um það sem gerist eða er það sem gerist að gerast vegna þess að hún er að skrifa það? Og við erum að fara þá leið að það er hvort tveggja - þannig virkar sköpunin og listin og skáldskapurinn - við skrifum um það sem við vitum, skynjum og það sem við finnum og það sem við sjáum og við búum sömuleiðis til nýjan raunveruleika með því að skrifa og skapa. Þetta er sviðstungumálið sem við höfum verið að þróa saman í hópnum.

MCL

Þetta er líka kannski það sem er spennandi við leikgerðir af skáldsögum – að finna lykilinn að því að segja söguna á annan hátt.

GKÓ

Og þetta er bara eins og þýðingarverkefni – maður er að þýða úr einu tungumáli yfir á annað tungumál. Mig langaði svo mikið til þess að reyna að þýða tilfinningarnar sem ég upplifði sem lesandi - og líka þetta samband sem maður á sem lesandi við texta þegar maður les bækur. Við tókum alls kyns listrænar ákvarðanir sem voru til þess gerðar að skilja eftir pláss fyrir áhorfendur, túlkun og merkingu þeirra - leyfa þeim að fylla út í myndina - eins og lesandi þegar hann les bók.

Heim

Listabraut 3

103 Reykjavík

Kt. 420269-6849

Miðasala: 568 8000

midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500

Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is

Miðasalan er opin 12-17 alla virka daga og 12-20 á sýningardögum. 568 8000
jafnlaunavottun 2023-2026

Takk fyrir stuðninginn

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.

reykjavíkurborg logoorkusalan logoölgerðin logo