Auður Ava Ólafsdóttir, rithöfundur
Auður Ava Ólafsdóttir, rithöfundur, gerði sér ferð í Borgarleikhúsið
til að ræða við Maríönnu Clöru Lúthersdóttur um Ungfrú Ísland, hvernig bókin kom til og hvernig tilfinning það sé að sleppa tökunum af skáldsögu og horfa á eftir henni inn í leikhúsið.
Auður: Ég tók fram þessa bók aftur og er búin að vera að blaða í gegnum hana – í fyrsta sinn í langan tíma. Sumt er tímalaust – eins og staða minnihlutahópa. Bókin fjallar ekki bara um skáldkonur og hlutskipti þeirra í samfélaginu á þeim tíma þegar ekki var gert ráð fyrir að þær hefðu rödd heldur er þetta í rauninni saga um ungt fólk á jaðri samfélagsins. Við sögu koma fjórir skapandi einstaklingar – tvær konur og tveir ungir menn. Það er einn hommi í hópnum sem er mjög mikilvæg persóna sem kannski hefur fallið svolítið í skuggann af skáldkonunum tveimur, aðalsögupersónunni Heklu sem er sögð skrifa eins og karlmaður þegar henni er hrósað og Íseyju vinkonu hennar sem er húsmóðir með lítið barn og ólétt að öðru. Og það er ekkert óeðlilegt við það þótt einn af þessum fjórum, annar ungi maðurinn, eigi erfitt með að fá hugmyndir. Hann hefur þessa miklu löngun til að verða skáld – kannski meiri löngun heldur en að skrifa.
Ef lesnar eru sjálfsævisögur annars vegar karlhöfunda og hins vegar kvenhöfunda, þá má sjá ákveðið mynstur sem felst í því að karlhöfundar eru fæddir skáld, það er að segja starfsheitið kemur á undan þeirri athöfn að skrifa. Mér koma til að mynda til hugar frægar sjálfsævisögur Sartre og Nabokov. Sjálfsævisögur kvenhöfunda - við getum tekið Annie Ernaux sem dæmi - hefjast oft ekki fyrr en á kynþroskaskeiðinu og þar er það líkaminn sem er miðlægur í sögunni - ekki skáldagáfan. Og fyrir rithöfunda af kynslóð Ernaux og Heklu Gottskálksdóttur sem eru að byrja að skrifa fyrir tíma getnaðarpillunnar er sá líkami vandamál því hann getur orðið barnshafandi. En í grunninn er Ungfrú Ísland bók um að konur hafi alltaf verið skáld.
En viðtökurnar við bókinni voru mjög pólaríseraðar – svo ég noti hugtak sem er komið inn í umræðuna síðan. Ungfrú Ísland kemur út 2018 og fékk annars vegar ofboðslega góða dóma, fimm stjörnur í Mogganum – sem ég hafði aldrei fengið fyrir bók áður og hins vegar voru mjög harkaleg viðbrögð sem ég sá ekki fyrir og sem byggðust á því að ég væri einhvern veginn að fikta í ákveðinni kanónu í bókmenntasögunni. Að konur hefðu í raun haft alla möguleika en hefðu bara ekki verið jafn góðir höfundar. Ég hafði talið það til almennrar skynsemi – sem var líklega ofmat hjá mér - að það hlyti alltaf að vera jafnmikið af hæfileikaríkum kven- og karlrithöfundum í öllum samfélögum þar sem tækifærin væru jöfn. Og að það væri bara söguleg staðreynd að konur í íhaldssömu samfélagi 7. áratugarins hafi ekki átt möguleika á að verða rithöfundar. Nema kannski örfáar undartekningar.
Svo var annað – sem er kannski eðlilegt í litlu samfélagi en ég hélt ég hefði passað það vel í bókinni - að menn ímynduðu sér að hún væri lykilróman. Að það væri að finna í henni einhverjar sögulegar fyrirmyndir. En bókin er á engan hátt lykilróman. Ímyndunarafl Íslendinga er bara slíkt að okkur tekst alltaf að lesa í allt. Líka þar sem ekkert er. Þannig að það var notuð gamalkunnug aðferð og bent á eitt atriði sem væri ótrúverðugt – þessi gata var tvístefnugata en ekki einstefnugata 1963 - og þar með væri öll sagan ótrúverðug.
Þar með fór fólk á mis við merkingu skáldsögunnar því hún fjallar nefnilega um hæfileikana sem við misstum af. Um skáldkonur sem voru ekki til en hefðu getað verið til ef samfélagið hefði verið öðruvísi.
Ég man að í upphafi var ég að velta fyrir mér að skrifa bók um konu af kynslóð ömmu – sem er fædd undir lok 19. aldar. Báðar ömmur mínar voru í raun fátækar sveitastúlkur, önnur missti báða foreldra þegar hún var barn, hin annað foreldrið, önnur var músíkölsk en hin hafði bæði hæfileika og löngun til að skálda en lífið bauð ekki upp á það.
Ég held að í báðum ömmum mínum hafi búið fegurðarþörf af sama toga og ég reyni að gera skil í bókinni og felst í því að stækka hversdagsleikann og búa til fegurð úr honum.
Að búa sér til ævintýri og hliðarveruleika með hjálp ímyndunaraflsins líkt og mannkynið hefur alltaf gert.
Fegurðin í bókartitli felst ekki í útlitsfegurð heldur í þeirri huggun
að geta búið sér til heim sem er heill og fagur í þeim skilningi að hann gengur upp eins og listaverk, eins og skáldsaga.
MCL: En hvað verður til þess að þú ákveður að láta bókina gerast á öðrum tíma?
Auður: Það eru eiginlega tvær ástæður fyrir því að ég ákvað að staðsetja söguna í upphafi 7. áratugarins. Annars vegar sú staðreynd að ég er listfræðingur
að mennt og það vill svo til að ég hef skrifað talsvert um íslenska myndlist á 7. áratugnum og lesið mikið af viðtölum við íslenska myndlistarmenn sem einmitt eru tekin á Mokka- staður sem er hluti af sögusviði bókar! Þannig að mér fannst ég vera með 7. áratuginn í blóðinu og með nokkrum rétti má segja að fyrirmyndir Mokkaskáldanna í bókinni- ef einhverjar eru – hafi verið myndlistarmenn. Hin ástæðan er kannski svolítið persónulegri. Þannig var að móðir mín lést þegar ég var að byrja á bókinni og jafn undarlegt og það kann að virðast þá var það að sökkva mér niður í 7. áratuginn mín aðferð til að halda henni lengur hjá mér. Í mínum huga var þetta hennar tímabil. Hún var heimavinnandi húsmóðir sem átti fimm börn á ýmsum aldri og rak sjö manna heimili og á þeim tíma sem sagan gerist stóð hún eins og hálf þjóðin í húsbyggingum og hrærði í steypudalli með ungabarn á handlegg.
Síðan eru alltaf nokkrir hvatar og nokkrar spurningar sem verða til þess að maður skrifar bók. Eitt af því sem ég spurði mig að var til að mynda af hverju aðrar þjóðir- við getum tekið Dani sem dæmi - áttu á þessum tíma svona margar frábærar skáldkonur sem höfðu miklu meira vægi í samfélaginu heldur en hér. Og það þurfti svo sem ekkert að grafa neitt djúpt til að sjá að íslensku samfélagi var stjórnað á öllum sviðum af karlmönnum – í reykfylltum bakherbergjum eins og það er orðað. Ekki bara í stjórnmálum og efnahagslífinu heldur stýrðu karlmenn líka bókmenntaheiminum. Þá voru karlmenn snillingar en konur erfiðar. Það sýnir vel hverjir stjórnuðu landinu að ávextir voru í hæsta tolla flokki – fyrir þessa barnmörgu þjóð! En svo var annað sem var ekki tollað...
MCL: Vindlar og viskí kannski – fyrir reykfylltu bakherbergin?
Auður: Loks má segja að segja að ákveðið bakslag í réttindum hinsegin fólks og almennt í mannréttindamálum í heiminum árin 2017 og 2018 þegar ég vann að bókinni hafi verið viss trigger. En homminn Jón John er mikilvæg persóna í sögunni.
MCL: Mér finnst þetta frábær tími fyrir þessa sögu þó að hún
gæti að sumu leyti gerst á hvaða tímum sem er. En einmitt þarna
eru breytingar handan við hornið
– sem við lesendurnir vitum af – sem persónurnar fá kannski bara óljósa hugmynd um m.a. í gegnum tónlistina sem berst til landsins og þau munu lifa að sjá breytingar þótt þau muni ekki vera ungt fólk í þeim breytingum. Þannig að það er einhver von sem felst í því. En svo líka er þetta staðsett þannig að Halldór Laxness og Þórbergur Þórðarson kasta ákveðnum skugga – bæði jákvæðum og neikvæðum – á öll þessi ungu skáld. Þessi kynslóð sem er með svo sterkar fyrirmyndir, karlfyrirmyndir.
Auður: Já, Steinunn Sigurðar segir frá að hún vissi varla að það væru til kvenrithöfundar! Hún hafði nánast bara lesið bækur eftir karlmenn þegar hún gefur 19 ára út fyrstu ljóðabókina árið 1970.
MCL: Einmitt – þannig að þetta er frábær staðsetning þarna milli þess þegar íslensk bókmenntahefð verður aftur til og nútímans sem við vitum að er að koma.
Auður: Já, er þetta ekki bara allt að koma? Það var auðvitað allt annar veruleiki á Íslandi þegar bókin kom út árið 2018 en fyrir 60 árum þegar hún á að gerast. Þess vegna komu viðbrögðin við bókinni svolítið á óvart. Það hafa verið skrifaðar skrilljón bækur og gerðar skrilljón bíómyndir um karlhöfunda sem konur dást að en svo skrifa ég eina bók um kvenhöfund sem setur svolítið allt á hliðina.
MCL: Já, maður heldur að ákveðnum árangri hafi verið náð en svo
þarf ekki annað en að einhver karlhöfundur eða bara þekktur einstaklingur sem maður ber virðingu fyrir sé beðinn að nefna tíu bestu rithöfundana eða tíu bækur sem höfðu mest áhrif á þá og þá er ekki neinn kvenhöfundur nefndur.
Auður: Ég held að þeir séu kannski bara einlægir í þessu. Að karlhöfundum finnist karlhöfundar betri. Ég var sjálf spurð um það einhvern tímann í svona bókmenntadinner erlendis hvort það væru ekki einhver góð ljóðskáld á Íslandi. Ég hélt nú það og byrjaði spennt að telja upp. Þegar ég hafði lokið upptalningunni þá var fólk hætt að borða og horfði á mig og sá sem bar upp spurninguna dró þetta saman: þú nefndir átta konur og tvo karlmenn. Og ég var bara, ó gerði ég það? Ég er algjörlega kynblind þegar kemur að listum og var bara að telja upp frumlegustu ljóðskáldin. Listinn hefði sennilega orðið öðruvísi ef ég hefði verið spurð um skáldsagnahöfunda.
MCL: En svo alast karlmenn líka
upp í einhverju samfélagi og fylgja ákveðnum vegvísum – það þarf
að lesa þetta og þetta og svo að lesa þetta og þetta – og það þarf stundum að taka meðvitað skref inn í einhvers konar femínisma til þess að lesa eitthvað annað. Þetta er einhvers konar blinda.
Auður: Það er sagt að konur lesi bækur bæði eftir konur og karla
en karlar lesi fremur bækur eftir karlkyns höfunda. Kannski tengist þetta þörf til að spegla sig í aðalpersónunni – sem gæti skýrst af því að konur skrifa kannski frekar um konur.
MCL: Þeim er kannski ekki kennt að setja sig í spor kvenna á sama hátt og við hin sem ósjálfrátt verðum að setja okkur í spor karlmanna – það er menningarlega óhjákvæmilegt.
Auður: Ég hef reyndar skrifað tvær bækur um karlmannlega viðkvæmni – Afleggjarann og Ör – gegn eitraðri karlmennsku. Þegar Afleggjarinn var þýddur og ég hitti erlenda lesendur, þá voru alveg jafnmargir karlmenn í salnum.
MCL: Ég man ekki hver sagði þessa snilldarsetningu – að í listum og bókmenntum þá stæði konan alltaf fyrir konu en karlmaðurinn gæti staðið fyrir manneskjuna. Og ég er sammála því að það sé þannig sögulega en ég held ekki að það þurfi að vera þannig. Maður sér bara persónu eins og Línu Langsokk – sem öll lítil börn geta speglað sig í. Þannig að ég trúi ekki að það sé í eðli okkar – ég trúi því að það sé hægt að breyta því.
Auður: Já, algjörlega, það er það
sem höfundurinn gerir, hann hefur endaskipti á hinu viðtekna og snýr hlutum á hvolf. (Tekur upp Ungfrú Ísland og blaðar í bókinni). Eitt af því sem lista-og bókmenntasagan segir okkur er að karlkyns listamenn hafa haft tilhneigingu til að líta á konur sem músur og hlutverk þeirra að styðja, hughreysta og hvetja þá þegar efasemdirnar banka upp á. Í sögulegu samhengi hafa konur oft verið smættaðar niður í fallega líkama. Mér er minnisstæð grein sem ég rakst á í tiltekt hjá mér þegar ég vann að Ungfrú Ísland sem Isabella Alliende skrifaði fyrir TMM fyrir margt löngu þegar hún var hér gestur á bókmenntahátíð. Í kringum 1990 ef ég man rétt. Hún telur upp nokkrar kvengerðir, eins konar erkitýpur, sem sé að finna í verkum karlhöfunda og niðurstaða hennar er skýr: konurnar sem karlmenn lýsa eru ekki til. Í Ungfrú Íslandi sný ég aðeins upp á hefðina þegar kærasti söguhetjunnar, skáldið Starkaður spyr Heklu: „Hvað sérðu við mig?“ Og hún svarar „Þú ert karlmaður, þú ert með líkama.“ Hana dreymir hins vegar um að einhver segi við hana: ,,Skrifaðu“ og það er einmitt það sem Jón John gerir, hún er svo lánsöm að eiga einhvern að sem trúir á hana. Það gæti ég trúað að hafi verið draumur margra kvenna sem þráðu að skrifa á þeim tíma sem söguhetjan var uppi að eiga einhvern að í lífinu sem sagði við þær „skrifaðu“ – ég skal setja í þvottavélina – skrifaðu – ég skal elda í kvöld.
MCL: Já, Jón John myndi sjóða ýsubitana fyrir Heklu – eins og Starkað dreymir um hún geri þótt hann sé farið að gruna að það muni ekki gerast. Það er náttúrulega dásamleg senan þar sem hann segir við hana „Myndir þú setja ýsu í pott fyrir mig í hádeginu?“
Auður: Í bókinni flýr homminn Jón John til Kaupmannahafnar af því að hann telur að þar séu meiri möguleikar á að vera hann sjálfur. En það var ekkert auðvelt heldur!
En stóra spurningin í bókinni er hvert flýr skáld sem ekki hefur verið gefið út og skrifar á fámennistungumáli sem 177.000 manns tala?
Í bókinni er að finna þá hugmynd að föðurland rithöfunda sé tungumálið – það er kallað móðurlandið í bókinni. Og þarna 2018 þegar bókin kemur út þá er komin einangrunarstefna í Evrópu, þjóðir að segja sig úr Evrópusambandinu eins og Bretar, og aðrar að íhuga það. Mig langaði til að draga upp mynd af lokuðu, einangruðu landi. Á þessum tíma ferðuðust fáir til útlanda og í bókinni er aðeins einn ferðamaður! Við áttum örfáar millilandavélar og þetta ár, 1963 ferst íslensk vél, Hrímfaxi, í Osló – með sjö farþega um borð. Þetta er árið sem Surtseyjargosið hófst og mig langaði til að kona að vaska upp í Hveragerði væri sú fyrsta sem sæi gosský á himni. Og að hún myndi hringja í aðra konu sem væri kannski líka að vaska upp og segja henni að horfa til himins. Mér fannst ég líka nauðsynlega þurfa að koma að ýmsum persónulegum kenningum og hugmyndum um sköpunina í bókinni – og helsta málpípa þeirra er kannski Ísey, vinkona Heklu, sem veit ekki að hún er skáld. Sem skrifar samtöl og er óvart búin að skrifa leikrit.
MCL: Bara hvernig hún bíður eftir dagblöðunum utan af fiskinum sem hún kaupir – ef það skyldi vera eitthvað spennandi þar til að lesa. Hún er svo svelt.
Auður: Það er aftur þessi grunnhugmynd um að stækka hversdagsleikann, gera hann að einhverju, skapa fegurð úr honum, úr því sem ekkert er. Og það er í sjálfu sér inntak skáldskapar og allrar listsköpunar. Þú ert að vinna með eitthvað smátt, með eina þjáða persónu og þá ertu að vinna með þjáningu mannkyns.
MCL: Hversu erfið er sú tilhugsun að sleppa tökunum af bókinni? Af því nú þekkir þú leikhús-formið náttúrulega mjög vel! Þú skrifaðir þarna fjögur leikrit milli 2012 og 2015 – og Ör var fyrst skrifað sem leikrit áður en það varð skáldsaga og svo aftur leikrit á sviði!
Auður: Mér finnst leikritun ofboðslega spennandi listform – ekki síst fyrir það hversu opið það er í tíma og rými. Það er hægt að gera svo mikið sem ekki er hægt að gera í öðrum listmiðlum sem gerir það bæði ofboðslega spennandi og ofboðslega erfitt. En mér finnst tilhugsunin mjög góð. Sérstaklega af því að ég ber ekki neina ábyrgð heldur hópur af hæfileikaríku fólki hér í Borgarleikhúsinu sem ætlar að gera bókina að sínu verki.
Listabraut 3
103 Reykjavík
Kt. 420269-6849
Miðasala: 568 8000
midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500
Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is
Takk fyrir stuðninginn
Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.