Heim
Leita
1897

Leikfélag Reykjavíkur

Leikfélag Reykjavíkur er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins, stofnað 11. Janúar 1897.
Félagið flytur úr Iðnó yfir í Borgarleikhúsið

Leikfélagið annast rekstur Borgarleikhússins í samræmi við samkomulag félagsins við Reykjavíkurborg. Félagið er öllum opið og almennt félagsgjald er 6.000 krónur, en ókeypis fyrir 70 ára og eldri. Kortagestir Borgarleikhússins fá félagsaðild á helmings afslætti og handhafar lúxuskorta eiga þess kost að gerast félagar án endurgjalds. Félagsfólk Leikfélags Reykjavíkur myndar öflugan bakhjarl við starfsemi Borgarleikhússins og félagið stendur fyrir reglulegum fræðslufundum, hádegisfyrirlestrum og málþingum.

Smelltu hér til að skrá þig í Leikfélag Reykjavíkur.

Sagan

Sagan

Félagið var frá upphafi mjög metnaðarfullt og félagarnir tilbúnir að leggja hart að sér til að standa fyrir sjónleikjum af hæsta gæðaflokki. Ólíkt öðrum leikfélögum á landinu lagði Leikfélag Reykjavíkur áherslu á að leikarar fengju greitt kaup fyrir hvert sýningarkvöld, þó ekki væri það nóg til að þeir gætu haft viðurværi af leiklist eingöngu. Þó fæstir leikarar Leikfélagsins á fyrri hluta tuttugustu aldar hefðu lokið formlegri leiklistarmenntun og sinntu öðrum störfum í dagvinnu litu margir þeirra fyrst og fremst á sig sem leikara.

Leikfélagið átti sínar stjörnur, á borð við Stefaníu Guðmundsdóttur, Jens Waage, Guðrúnu Indriðadóttur, Brynjólf Jóhannesson og Soffíu Guðlaugsdóttur, sem nutu mikilla vinsælda og virðingar í samfélaginu fyrir list sína. Þrátt fyrir að fjárhagur Leikfélagsins væri oft erfiður skapaði metnaðarfullt starf þess því fljótlega stöðu sem ein helsta menningarstofnun þjóðarinnar og má segja að það hafi gegnt hlutverki þjóðleikhúss þar til Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu var vígt 1950.

Við stofnun Þjóðleikhússins var óttast að Leikfélag Reykjavíkur myndi hætta starfsemi enda var stærstur hluti helstu leikara þess fastráðinn til Þjóðleikhússins. Svo varð þó ekki. Töluverður fjöldi ungs og kraftmikils fólks kom fyllti þau skörð sem mynduðust og undir stjórn eins af reyndari leikurum félagsins, Þorsteins Ö. Stephensen, hófst endurreisn og endurskipulagning Leikfélagsins. Í stað þess að leggja árar í bát réðst Leikfélagið í stór og metnaðarfull verkefni sem sýndu svo um munaði að Leikfélag Reykjavíkur var komið til að vera.

Endurreisn félagsins skilaði sér bæði í aukinni aðsókn og hækkuðum styrk frá Reykjavíkurborg sem gerði það að verkum að snemma á sjöunda áratugnum gat Leikfélagið í fyrsta sinna fastráðið leikara við félagið. Lögum félagsins var breytt og leikhússtjóri ráðinn sem átti að veita leikhúsinu listræna forystu og annast daglegan rekstur. Ráðist var í aðkallandi endurbætur á húsnæði, áhorfendasalur lagfærður, settar upphækkanir og ný sæti keypt. Reyndar var draumurinn um nýtt leikhús þegar kominn á kreik enda aðstaða og aðbúnaður í Iðnó löngu orðin ófullnægjandi, þrátt fyrir lagfæringar og endurbætur.

Einnig varð ljóst að gamla leikhúsið við Tjarnarbakkann var orðið of lítið fyrir starfsemina. Ástæða þótti til að bæta við sýningarrýmum og var leitað út fyrir Iðnó að hentugum leikrýmum. Sýningar voru haldnar í Tjarnarbíói um árabil sem og í Austurbæjarbíói, en margir muna sjálfsagt eftir fjörugum miðnætursýningunum þar. Það var greinilega orðið aðkallandi að finna Leikfélaginu nýtt húsnæði sem myndi rúma alla starfsemi Leikfélagsins undir einu þaki og svara kalli tímans um aðstöðu fyrir nútíma leikhúsrekstur.

Leikfélagið hafði stofnað húsbyggingarsjóð Leikfélags Reykjavíkur árið 1953 að frumkvæði Brynjólfs Jóhannessonar og fljótlega voru hafnar viðræður við borgaryfirvöld um byggingu nýs leikhúss. Í mörg ár unnu félagsmenn ötullega að því að styrkja húsbyggingarsjóð með leiksýningum, skemmtunum og öðrum uppákomum undir slagorðinu „Við byggjum leikhús”. Leikfélagsfólk vann af óbilgirni, metnaði og festu að því að styrkja sjóðinn og eftir margra ára þrotlausa vinnu var ljóst að draumurinn gæti orðið að veruleika.

Snemma árs 1975 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur stofnskrá fyrir Borgarleikhúsið í Reykjavík. Arkitektar hússins voru ráðnir Guðmundur Kr. Guðmundsson, Ólafur Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson, sem auk þess var lengi vel leikari hjá Leikfélaginu. Fyrsta skóflustungan var tekin haustið 1976 í Kringlumýri og þann 3. september 1989 var Leikfélaginu afhent lyklavöldin að Borgarleikhúsinu sem var opnað með pompi og prakt með hátíðarhöldum dagana 20.–22. október 1989. Við það tækifæri voru frumsýndar tvær nýjar leikgerðir á sögum Halldórs Laxness, Ljósi heimsins á Litla sviðinu og Höll sumarlandsins á Stóra sviðinu.

Borgarleikhúsið er stærsta og best búna leikhús landsins, 10.400 fermetrar að stærð. Að auki telst það í hópi best búnu leikhúsa Evrópu. Í upphafi voru sviðin tvö, Stóra sviðið og Litla sviðið. Stóri salurinn er blævængslaga með einu, hallandi gólfi og tekur 547 manns í sæti, en sá litli er sexhyrndur með breytilegri sætaskipan og tekur að jafnaði 170-230 manns í sæti, en hefur tekið hátt á þriðja hundrað gesta. Í október 2001 var þriðja sviðinu bætt við, Nýja sviðinu, ,,svartur kassi“ sem býður uppá mikla möguleika hvað varðar rýmisnýtingu, en sæti eru þar fyrir allt að 300 áhorfendur. Þriðja hæðin, kaffileikhúsið, lítill salur við mötuneyti starfsmanna, hefur auk þess verið notaður við ýmsar uppákomur, fyrirlestra og sýningar. Leikið hefur verið á ýmsum öðrum stöðum í húsinu eins og í forsal leikhússins, í starfsmannarými baksviðs og að auki hefur verið boðið upp á sviðsettar skoðunarferðir um allt leikhúsið.

Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“ í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Í rúmlega 120 ár hefur Leikfélag Reykjavíkur verið leiðandi afl í leiklistarlífi þjóðarinnar. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.

Myndir úr Iðnaðarmannahúsinu (Iðnó) við Tjörnina

Leikritunarsjóður Leikfélags Reykjavíkur

Leikritunarsjóður Leikfélags Reykjavíkur var stofnaður á aðalfundi félagsins árið 2007. Markmið sjóðsins er að efla nýsköpun og fjölbreytni í íslenskri leikritun, auka vægi leikritunar í samfélaginu og stuðla að því að hún njóti virðingar í samfélagi lista.Til að ná þessum markmiðum er stefnt að því að sjóðurinn tryggi að alltaf verði að minnsta kosti eitt leikskáld starfandi við Borgarleikhúsið.Skáldið fær aðstöðu og stuðning í leikhúsinu, vinnur þar á samningstímanum og er hluti af starfsliði Borgarleikhússins. 

Fyrir tilstuðlan sjóðsins hafa 10 skáld nú þegar starfað sem leikskáld Borgarleikhússins:

Auður Jónsdóttir

Jón Gnarr

Kristín Marja Baldursdóttir

Tyrfingur Tyrfingsson

Salka Guðmundsdóttir

Björn Leó Brynjarsson

Þórdís Helgadóttir

Eva Rún Snorradóttir

Matthías Tryggvi Haraldsson

Birnir Jón Sigurðsson

Núverandi leikskáld hússins eru þau Kolbrún Björt Sigfúsdóttir og Ragnar Ísleifur Bragason

Stjórn Leikfélags Reykjavíkur

Skömmu eftir að Leikfélagið flutti inn í Borgarleikhúsið var gerður nýr samningur við Reykjavíkurborg sem gekk í gildi 11. janúar árið 2000. Þá leysti stjórn Leikfélags Reykjavíkur leikhúsráð af hólmi og skyldi stjórn bera ábyrgð á rekstri leikhússins. Skömmu síðar voru gerðar breytingar á lögum félagsins til að opna áhugafólki um starfsemi LR aðild að félaginu, en frá stofnun þess voru það eingöngu starfsfólk Leikfélagsins sem áttu aðild að félaginu. Stjórn er kjörinn á aðalfundi félagsins og er í dag skipuð áhugafólki um rekstur Borgarleikhúss og ræður hún til sín leikhússtjóra og framkvæmdastjóra til reksturs á leikhúsinu.

Núverandi stjórn Leikfélags Reykjavíkur

Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður

Hilmar Oddsson, varaformaður

Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir

Björgvin Skúli Sigurðsson

Sigríður Margrét Guðmundsdóttir

Samþykktir LR

Samþykktir fyrir Leikfélag Reykjavíkur ses.

Nafn og aðsetur

1. gr.
Félagið er sjálfseignarstofnun skv. skilgreiningu laga nr. 33/1999 og heitir Leikfélag Reykjavíkur ses. Lögheimili þess og aðalstarfsstöð er í Borgarleikhúsinu, Listabraut 3, 103 Reykjavík.

Tilgangur

2. gr.
Tilgangur félagsins er að vekja áhuga á góðri leiklist og sýna sjónleiki í Reykjavík.


3. gr.
Félagið annast rekstur Borgarleikhússins í Reykjavík og starfsemi sem þar fer fram í samræmi við samkomulag
Reykjavíkurborgar og Leikfélags Reykjavíkur ses. um eignarhald og rekstur Borgarleikhússins í Reykjavík.
Félagar, inntaka, úrsögn

4. gr.
Félagar geta orðið allir áhugamenn um leiklist og leikhúsrekstur Leikfélags Reykjavíkur ses. í Borgarleikhúsi.

5. gr.
Umsóknir um inntöku skulu vera skriflegar og berast formanni félagsins. Nýr félagi staðfestir félagsaðild sína með greiðslu félagsgjalds og undirskrift samþykkta félagsins. Á næsta félagsfundi skal stjórnin tilkynna um inngöngu nýrra félaga.

6. gr.
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og berast formanni. Greiði félagsmaður ekki árgjald fellur hann af félagsskrá. Á næsta félagsfundi skal stjórnin tilkynna um úrsögn félaga.

7. gr.
Félagsgjöld eru ákveðin af aðalfundi og er gjalddagi 1. september ár hvert. Félagsgjaldið skal vera greitt fyrir aðalfund, enda hafa eigi aðrir rétt til setu á aðalfundi en skuldlausir félagar. Félagar sem náð hafa 70 ára aldri skulu undanþegnir greiðslu félagsgjalda. Félagsgjöld renna í félagssjóð, sem stjórnin ráðstafar til félagsstarfs og styrktar og hvatningar fyrir félagsmenn.

Stjórn

8. gr.
Í stjórn félagsins eiga sæti fimm menn, formaður, varaformaður, ritari og meðstjórnendur, kosnir á aðalfundi skriflegri kosningu. Jafnframt skal kjósa einn varamann. Kjörtímabil stjórnarmanna og varamanna er 3 ár og skulu þeir vera fullgildir félagar þegar kosning fer fram. Aldrei skulu fleiri en tveir stjórnarmenn á hverjum tíma vera starfsmenn félagsins. Það ár sem stjórnarkjör fer fram skal stjórn félagsins skipa kjörnefnd til að undirbúa tillögur til aðalfundar um stjórnarmenn fyrir næsta tímabil. Tilkynning um skipan kjörnefndar skal berast félagsmönnum ekki síðar en 1.september.


9. gr.
Láti stjórnarmaður af störfum eða fullnægi ekki lengur skilyrðum til setu í stjórn skv. samþykktum þessum eða lögum nr. 33/1999, skal varamaður taka sæti hans til loka kjörtímabilsins. Innan eins mánaðar skal stjórnin tilnefna nýjan aðila sem varamann sem situr til loka kjörtímabilsins.

10. gr.
Stjórnin fer með öll málefni félagsins og ber ábyrgð á leikhúsrekstri fyrir þess hönd. Stjórnin skal vera leikhússtjóra til ráðuneytis um verkefnaval. Undirskrift þriggja stjórnarmanna skuldbindur félagið. Stjórnin ræður leikhússtjóra skv. 15. gr. og framkvæmdastjóra skv. 17. gr.

11. gr.
Leikhússtjóri og framkvæmdastjóri eiga sæti á stjórnarfundum þar sem fjallað er um leikhúsrekstur félagsins, nema stjórn félagsins ákveði annað í einstökum tilvikum, og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

12. gr.
Formaður kveður til stjórnarfunda, sem skulu boðaðir með dagskrá. Fund skal og jafnan halda ef einhver stjórnarmanna, leikhússtjóri eða framkvæmdastjóri krefst þess. Um það sem gerist á stjórnarfundum skal haldin gerðabók sem skal undirrituð af þeim er fund sitja. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

13. gr.
Stjórn skal samþykkja fjárhagsáætlun fyrir hvert leikár áður en það hefst. Fjárhagsáætlun skal byggja á rekstrar- og
starfsáætlun. Fjárhagsár er það sama og leikár, frá 1.ágúst til 31.júlí næsta árs. Samþykki stjórnar þarf fyrir öllum
kjarasamningum sem gerðir eru í nafni félagsins og leita skal samþykkis hennar fyrir öllum meiri háttar fjárhagsákvörðunum svo og frávikum frá samþykktum fjárhagsáætlunum.

14. gr.
Stjórn heldur fasta fundi einu sinni í mánuði a.m.k. 10 mánuði ársins. Þar skal fjallað um leikhúsrekstur félagsins og
leikhússtjóri og framkvæmdastjóri gefa skriflegar skýrslur um starfsemina, fjárhagsstöðu og horfur og mál sem unnið hefur verið að milli funda.

15. gr.
Stjórnarmenn eru bundnir trúnaði um málefni félagsins og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu sem
stjórnarmenn. Trúnaður helst þó stjórnarmenn láti af störfum.

16. gr.
Telji stjórnarmaður sig, vegna persónulegra tengsla, vanhæfan til meðferðar máls, skal hann ekki taka þátt í vinnslu þess og víkja af fundi þegar málið kemur til umræðu og afgreiðslu.

Leikhússtjóri

17. gr.
Stjórnin ræður leikhússtjóra til fjögurra ára. Heimilt er að ndurráða leikhússtjóra í allt að fjögur ár; hann má þó aldrei
sitja lengur en átta ár samfellt. Starf leikhússtjórans skal auglýst laust til umsóknar minnst sex mánuðum áður en ráðningartíma starfandi leikhússtjóra lýkur. Stjórnin ákveður laun hans og ráðningarkjör og gerir við hann starfssamning, sem er uppsegjanlegur af beggja hálfu með 6 mánaða fyrirvara. Frá þeim tíma að nýr leikhússtjóri kemur til starfa skal hann fara með vald leikhússtjóra í öllum þeim málum er varða starfsemi næsta leikárs, en fráfarandi leikhússtjóri í því sem varðar yfirstandandi leikár.


18. gr.
Leikhússtjóri fer með yfirstjórn og hefur yfirumsjón með leikhúsrekstri í umboði stjórnar. Hann ber listræna ábyrgð á
starfseminni og rekstrarlega ábyrgð gagnvart stjórninni. Leikhússtjóri semur starfsáætlun og sér um framkvæmd hennar innan marka samþykktrar fjárhagsáætlunar. Leikhússtjóri ákveður ráðningu listamanna.

Framkvæmdastjóri

19. gr.
Stjórnin ræður framkvæmdastjóra í samráði við leikhússtjóra. Stjórnin ákveður laun hans og ráðningarkjör og gerir við hann ráðningar - og starfssamning.


20. gr.
Framkvæmdastjóri fer með og ber ábyrgð á: fjármálastjórn, áætlanagerð, verkstjórn, starfsmannastjórn og markaðsmálum. Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri í samráði við leikhússtjóra. Framkvæmdastjóri annast ráðningu annarra starfsmanna en listamanna í samráði við leikhússtjóra.
Stjórnin veitir framkvæmdastjóra prókúruumboð fyrir félagið. Hann skal sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna sé með tryggilegum hætti. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórn og endurskoðendum allar þær upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska eftir.

Uppgjör, endurskoðun, meðferð fjármuna.

21. gr.
Framkvæmdastjóri skal semja árshlutauppgjör skv. ákvörðun stjórnar og ársreikninga fyrir hvert reikningsár og leggja þá fyrir stjórn til staðfestingar. Reikningsár félagsins er frá 1. ágúst til 31. júlí.


22. gr.
Aðalfundur kýs endurskoðunarfélag til þess að endurskoða reikninga félagsins og skulu þeir ávallt áritaðir af löggiltum endurskoðanda.

Aðalfundir og aukafundir

23. gr.
Aðalfund skal boða með tveggja vikna fyrirvara í bréfi og/eða tölvupósti, sem senda skal öllum félagsmönnum með fullgild félagsréttindi skv. 5., 6., og 7. gr. Aðalfundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað og hann er haldinn á tilskildum tíma.


24. gr.
Félagsfundir skulu haldnir þegar stjórnin telur þess þörf, þó ekki sjaldnar en einu sinni á hverju leikári, eða ef minnst 7 fullgildir félagsmenn óska þess skriflega. Félagsfundi skal boða með minnst viku fyrirvara, bréflega, rafrænt eða símleiðis.

25. gr.
Aðalfundarstörf eru þessi:

1. Skýrsla stjórnar og leikhússtjóra
2. Skýrsla framkvæmdastjóra og endurskoðaðir ársreikningar ásamt tillögu um ráðstöfun hagnaðar eða taps lagðir fram til samþykktar.
3. Breytingar á samþykktum félagsins, með þeim fyrirvara að stjórnin hafi fengið breytingatillögur í hendur eigi síðar en 1. september, enda séu slíkar breytingatillögur sendar félagsmönnum með fundarboði.
4. Málefni Eftirlaunasjóðs LR
5. Kosning stjórnarmanna skv. 8. gr.
6. Kosning endurskoðenda skv. 20. gr.
7. Ákvörðun um félagsgjöld
8. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna.
9. Önnur mál.

26. gr.
Á aðalfundi ræður afl atkvæða nema öðruvísi sé fyrir mælt í landslögum eða samþykktum þessum.


Heiðursfélagar

27. gr.

Aðalfundur getur með 3/4 hluta atkvæða þeirra sem á fundi eru, kosið heiðursfélaga hvern skráðan félaga, en utanfélagsmenn því aðeins, að atkvæðin séu samhljóða, hvort tveggja að viðhafðri skriflegri, leynilegri atkvæðagreiðslu. Tillaga um heiðursfélagakjör skal hafa borist stjórn félagsins eigi síðar en 1. september. Stjórnin ein hefur rétt til að leggja slíka tillögu fyrir aðalfund. Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalds skv. 7. gr., en að öðru leyti eru þeir háðir samþykktum félagsins.


Félagsslit.

28. gr.

Félaginu verður aðeins slitið með minnst 3/4 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi, enda hafi verið sérstaklega til fundarins boðað í því skyni. Skulu skuldlausar eignir félagsins og sjóðir er til verða við félagsslit renna til Leiktjaldasjóðs Reykjavíkurborgar, sem borgarstjórn Reykjavíkur varðveitir og setji skipulagsskrá um í samræmi við gjafabréf dags. 30. maí 1866 fyrir Coulissusjóð bæjarins.


Ýmis ákvæði.

29. gr.
Engu má breyta í samþykktum þessum, nema á aðalfundi og þarf minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða til að breytingin nái fram að ganga. Ákvæðum 2. gr. um tilgang félagsins og 27. gr. um félagsslit má þó aldrei breyta efnislega.


30. gr.
Þar sem ekki er öðruvísi kveðið á um í samþykktum þessum gilda ákvæði laga nr. 33/19. mars 1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur og eru þau fylgiskjal með
samþykktum þessum.

Samþykktir fyrir LR.

Þannig samþykktar með breytingum á aðalfundi Leikfélags Reykjavíkur ses. 31. október 2022.

Leikhússtjórar Leikfélags Reykjavíkur

Frá stofnun Leikfélags Reykjavíkur fram til ársins 1963 gegndi formaður Leikfélagsins í raun stöðu leikhússtjóra, framan af oft í samvinnu við leiðandi leikstjóra félagsins. Með breyttum lögum Leikfélagsins og auknu framlagi frá Reykjavíkurborgárið 1963 var Leikfélaginu gert kleift að ráða leikhússtjóra, sem er listrænn stjórnandi leikhússins og hefur yfirumsjón með rekstri þess. Fyrsti leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur var Sveinn Einarsson, en núverandi leikhússtjóri er Brynhildur Guðjónsdóttir.

Leikhússtjórar Borgarleikhússins

Sveinn Einarsson 1963 - 1972

Vigdís Finnbogadóttir 1972 - 1980

Stefán Baldursson og Þorsteinn Gunnarsson 1980 - 1983

Stefán Baldursson 1983 - 1987

Hallmar Sigurðsson 1987 - 1991

Sigurður Hróarsson 1991 - 1996

Viðar Eggertsson 1996

Þórhildur Þorleifsdóttir 1996 - 2000

Guðjón Pedersen 2000 - 2008

Magnús Geir Þórðarson 2008 - 2014

Kristín Eysteinsdóttir 2014 - 2020

Brynhildur Guðjónsdóttir 2020 - 

Heiðursfélagar Leikfélags Reykjavíkur

Aðalfundur Leikfélags Reykjavíkur tilnefnir reglulega heiðursfélagaLeikfélagsins. Sá heiður er veittur fyrir mikilsvert og langvarandi framlag til starfsemi Leikfélagsins.

Sem stendur njóta 18 einstaklingar þess heiðurs að vera heiðursfélagar Leikfélags Reykjavíkur:

Aðalheiður Jóhannesdóttir

Guðrún Ásmundsdóttir

Guðrún Stefánsdóttir

Hanna María Karlsdóttir

Inga Jóna Þórðardóttir

Kjartan Ragnarsson

Margrét Helga Jóhannsdóttir

Ólafur Örn Thoroddsen

Páll Baldvin Baldvinsson

Ragnar Hólmarsson

Soffía Jakobsdóttir

Stefán Baldursson

Sveinn Einarsson

Theodór Júlíusson

Tómas Zoëga

Vigdís Finnbogadóttir

Þorleikur Karlsson

Þorsteinn Gunnarsson

Þórhildur Þorleifsdóttir

Stefna

ÁRÆÐI - METNAÐUR - FJÖLBREYTNI

Leikfélag Reykjavíkur var stofnað árið 1897 og með því var grunnur lagður að atvinnuleikhúsi á Íslandi, sem jafnt og þétt hefur verið byggt á æ síðan. Hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu er að finna dýrmæta reynslu og mikla hæfileika. Borgarleikhúsið er stærsta leikhúsbygging landsins með þremur sýningarsölum, búnum nútíma tækjabúnaði.

Hlutverk Borgarleikhússins er:

  • að vera heimili sviðslistafólks sem hreyfir við fólki með kraftmiklum leiksýningum.
  • að vera leiðandi afl í leiklistarstarfi.
  • að fræða, skemmta, vekja umræðu og spegla samfélagið á hverjum tíma.

Borgarleikhúsið er opið öllum og vill höfða til allra samfélagshópa.

LISTRÆN SÝN

Borgarleikhúsið er lifandi, framsækið og djarft leikhús. Í öllu okkar starfi höfum við áræði, metnað og fjölbreytni að leiðarljósi.

Áræði okkar birtist meðal annars í verkefnavali, vali á listrænum stjórnendum og starfsfólki. Við erum óhrædd við að veita nýju fólki tækifæri og sinna þannig grasrótinni.

Metnaður skín í gegn í öllu okkar starfi. Við leggjum okkur fram um að veita áhorfendum ógleymanlega upplifun með metnaðarfullum sýningum og framúrskarandi starfsfólki í hrífandi umhverfi.

Fjölbreytni er leiðarljós í öllu okkar starfi. Fjölbreytnin birtist til að mynda í verkefnavali, ráðningum starfsfólks og áhorfendahópi. Öll eru velkomin í Borgarleikhúsið og við leggjum áherslu á að ólíkar raddir fái að hljóma hjá starfsfólki leikhússins.

STEFNA BORGARLEIKHÚSSINS

1. Ögrandi, framsækið og áræðið leikhús

Við leggjum okkur fram um að bjóða upp á framúrskarandi leiklist með sýningum sem snerta áhorfendur og hvetja þá til að virkja eigin sköpunarkraft. Við erum óhrædd við áskoranir og kappkostum við að vera áræðin. Við viljum bjóða gestum okkar upp á upplifun sem hreyfir við þeim, vekur þá til umhugsunar og breytir jafnvel lífi þeirra á einhvern hátt.

2. Opið leikhús

Við viljum vera leikhús sem stendur öllum opið og nær til allra samfélagshópa með fjölbreyttum sýningum. Við leggjum okkur fram um að skapa sýningar sem endurspegla samfélagið og samtímann hverju sinni. Við tryggjum gott aðgengi að leikhúsinu okkar og áhorfendasölum.

3. Heimili sviðslistafólks

Í Borgarleikhúsinu starfar framúrskarandi listafólk og fagfólk. Við viljum vera suðupottur menningar og hornsteinn sviðslista í Reykjavík. Þannig erum við leiðandi afl í sviðslistastarfi og þjónustum bæði listina og áhorfendur. Við leggjum áherslu á að sinna grasrótinni vel, með samstarfsverkefnum, öflugu fræðslustarfi og með því að veita nýju listafólki tækifæri.

4. Segjum sögur, fræðum, skemmtum og gleðjum

Við viljum endurspegla samfélagið okkar en á sama tíma erum við óhrædd við að leita nýrra svara í klassískum leikbókmenntum. Við viljum fræða áhorfendur en einnig skemmta þeim. Við viljum hreyfa við áhorfendum en einnig hræra upp í þeim. Við viljum veita áhorfendum okkar innblástur en einnig tækifæri til að gleyma stund og stað.

5. Íslensk frumsköpun

Við leggjum okkur fram um að styðja íslensk leikskáld á öllum aldri og af öllum kynjum. Við leggjum áherslu á þróun handrita frá fyrstu hugmynd til fullbúinna verka, en við erum jafnframt óhrædd við að leita nýrra leiða í sköpun sviðsverka.

6. Góður vinnustaður þar sem fólki líður vel í vinnunni

Starfsfólk Borgarleikhússins er mesti auður þess. Við leggjum okkur fram um að búa til vinnuumhverfi þar sem hver og einn fær tækifæri til að blómstra og vaxa í starfi. Við leggjum áherslu á að Borgarleikhúsið sé fjölskylduvænn vinnustaður, með virka fjölskyldu-, jafnréttis-og samskiptastefnu.

7. Ábyrgur rekstur

Styrk fjármálastjórnun er okkur kappsmál í Borgarleikhúsinu. Við vinnum eftir raunhæfum rekstraráætlunum og leggjum áherslu á virkt kostnaðareftirlit. Þannig tryggjum við starfsöryggi mannauðsins og framtíð Borgarleikhússins.

8. Jafnrétti

Við leggjum við áherslu á jöfn tækifæri og mismunum ekki eftir kyni né nokkru öðru. Við komum fram við alla af virðingu og berum virðingu fyrir skoðunum hvers annars. Við vinnum bæði eftir mannauðsstefnu og jafnlaunastefnu, en Borgarleikhúsið hlaut jafnlaunavottun sem gildir til ársins 2026.

9. Umhverfisvænn vinnustaður

Starfsfólk Borgarleikhússins flokkar og endurvinnur eftir bestu getu. Leikhúsið mun stíga fyrstu grænu skref Umhverfisstofnunar innan tíðar og þannig stuðla enn frekar að ábyrgum rekstri. Við stefnum einnig að því að minnka sorp og auka endurnýtingu.

10. Lifandi leikhús í ört stækkandi borg

Borgarleikhúsið á að vera menningarmiðja, sem öllum er opin og stolt borgarbúa. Við viljum bjóða upp á lifandi samkomustað þar sem fólk getur sótt sýningar eða aðra viðburði og notið samveru og veitinga í hlýlegu umhverfi. Við viljum að Borgarleikhúsið sé staður þar sem allir upplifa að þeir séu velkomnir.

Heið­urs­fé­lag­ar LR | Guð­rún Ásmunds­dótt­ir

Heið­urs­fé­lag­ar LR | Mar­grét Ólafs­dótt­ir

Heið­urs­fé­lag­ar LR | Stein­dór Hjör­leifs­son

Heið­urs­fé­lag­ar LR | Stein­þór Sig­urðs­son

Heið­urs­fé­lag­ar LR | Karl Guð­munds­son

Heim

Listabraut 3

103 Reykjavík

Kt. 420269-6849

Miðasala: 568 8000

midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500

Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is

Miðasalan er opin 12-17 alla virka daga og 12-20 á sýningardögum. 568 8000
jafnlaunavottun 2023-2026

Takk fyrir stuðninginn

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.

reykjavíkurborg logoorkusalan logoölgerðin logo