Þá Gunna og Felix þarf sennilega ekki að kynna fyrir neinum enda hafa þeir glatt börn á öllum aldri í áratugi og verið brennandi í áhuga sínum og ástríðu fyrir barnamenningu. Nú bjóða þeir félagarnir - ásamt Karli Olgeirssyni - börnum og fylgdarfólki á dásamlega jólastund í Borgarleikhúsinu, alla sunnudaga á aðventunni.
Gegnum tíðina hefur Felix gefið Gunnari sérlega góðar jólagjafir og þessi jól ætlar Gunni að launa vini sínum hugulsemina og gefa Felix bestu jólagjöf í heimi. Nú er gjöfin góða á leiðinni og bæði Gunni og Felix eru að farast úr spenningi rétt eins og öll börn sem bíða jólanna með fiðrildi í maganum.
Jól á náttfötunum var frumsýnd í Gaflaraleikhúsinu síðustu jól en nú eru Gunni og Felix komnir á Litla sviðið í Borgarleikhúsinu og lofa gleði, söng, gríni og spennu og síðast en ekki síst jóla-huggulegheitum!