Góða ferð inn í gömul sár er nýtt verk eftir Evu Rún Snorradóttur sem var annað af leikskáldum Borgarleikhússins á leikárinu 2022-2023. Hér er á ferðinni stórmerkilegt upplifunarleikhús þar sem Eva Rún kafar í HIV faraldurinn sem geisaði hér á níunda og tíunda áratug síðustu aldar með viðtölum og heimildasöfnun. Áhorfandanum er boðið í ljóðrænt en magnað ferðalag gegnum heimsfaraldur sem, ólíkt þeim sem nýverið geisaði, var sveipaður skömm og þaggaður niður.
Fyrri hluti sýningarinnar er hljóðverk sem gestir hlusta á í einrúmi en í síðari hluta er boðið á Nýja svið Borgarleikhússins þar sem lífinu er fagnað um leið og leitað er leiða til að heila sárin. HIV faraldurinn á Íslandi hefur í raun ekki verið gerður upp í listheiminum og fórnarlamba hans ekki minnst með sambærilegum hætti og annarra sem látið hafa lífið af völdum sjúkdóma eða náttúruhamfara. Þetta er þó að breytast í nýjum heimi þar sem jaðarsettir hópar eru loksins að öðlast rödd. Samfélagslegt mikilvægi þess að geta litið söguna sem og samtímann með nýjum gleraugum nýrra tíma verður seint ofmetið.
Í síðari hluta mæta gestir í Borgarleikhúsið. Þar tekur höfundur og leikstjóri verksins, Eva Rún, á móti gestum og leiðir stuttar umræður sem hægt er að hlusta á sitjandi við borð. Sá hluti sýningarinnar tekur um 30 mínútur. Þaðan er farið inn á Nýja sviðið sem hefur breytt um svip – stólaraðir og sviðspallur hafa verið fjarlægð og gestir geta hreyft sig í rýminu meðan á sýningu stendur. Gott aðgengi er fyrir hjólastóla inn á Nýja sviðið og einnig er hægt að fá sæti fyrir þau sem eiga erfitt með gang eða langar stöður. Þá er hjólastóll í boði sem hægt er að nálgast í forsalnum. Athugið að í þessum síðari hluta kemur fyrir hávær tónlist. Í salnum er alltaf hægt að tala við leikstjóra og biðja um aðstoð ef þess gerist þörf eða ef einhver þarf að yfirgefa salinn.
Þessi áhrifamikla sýning fjallar um heimsfaraldur sem, ólíkt þeim sem nýverið geisaði, var sveipaður skömm og þaggaður niður.
Frumsýning 4.febrúar 2023 á Nýja sviði Borgarleikhússins.