Leikskrá
Köttur á heitu blikkþaki er 720. sýning Leikfélags Reykjavíkur. Frumsýning 28. desember á Litla sviði Borgarleikhússins. Sýningartími er þrjár klukkustundir. Eitt hlé. Ljósmyndir eru teknar á æfingum og eru því ekki endanleg heimild um sýninguna. Sýningarréttur: Nordiska ApS, skv. sérstöku samkomulagi við The University of the South, Sewanee, Tennessee.
Maggie: Ásthildur Úa Sigurðardóttir
Brick: Sigurður Ingvarsson
Stóri pabbi: Hilmir Snær Guðnason
Stóra mamma: Katla Margrét Þorgeirsdóttir
Gooper: Hákon Jóhannesson
Mae: Heiðdís C. Hlynsdóttir
Séra Tooker: Halldór Gylfason
Jón St. Kristjánsson er einn af reyndustu þýðendum landsins. Hann nam leiklist við The Guildford School of Acting en hafði jafnframt mikinn áhuga á þýðingum frá unga aldri. Hann lék töluvert eftir útskrift, m.a. í Borgarleikhúsinu, og starfaði jafnframt sem leikstjóri. Þýðingarnar voru þó aldrei langt undan og þýddi hann m.a. fjölda teiknimynda, Andrés Önd í yfir 20 ár og fjölda barnabóka. Hann er þó ekki síður á heimavelli þegar kemur að sígildum bókmenntum – þ.á.m. Reisubók Gúllívers, Náðarstund, Glæstar vonir og Hin ósýnilegu en fyrir þá síðstnefndu hlaut Jón íslensku þýðingarverðlaunin.
Þorleifur Örn Arnarsson útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ árið 2003 og lauk námi í leikstjórn frá Ernst Busch leiklistarháskólanum í Berlín árið 2009. Hann hefur sett upp fjölda leiksýninga og ópera á Íslandi, í Þýskalandi og víðar. Hann var um hríð yfirmaður leiklistarmála hjá Volksbühne í Berlín. Í Þjóðleikhúsinu leikstýrði hann m.a. Íslandsklukkunni, Rómeó og Júlíu, Englum alheimsins og Sjálfstæðu fólki. Af nýlegum verkefnum í Borgarleikhúsinu má nefna Njálu og Guð blessi Ísland. Hann hlaut þýsku leiklistarverðlaunin Fástinn fyrir leikstjórn á Die Edda 2018 og Peer Gynt var verðlaunuð af Nachtkritik-Theatertreffen. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir Engla alheimsins og Njála hlaut tíu Grímuverðlaun.
Erna Mist er pistlahöfundur og súrrealískur listmálari. Hún útskrifaðist úr The Slade School of Fine Art vorið 2023, og hafa verk hennar verið sýnd víðsvegar í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ítalíu og hérlendis. Í Ketti á heitu blikkþaki hannar hún í fyrsta sinn leikmynd og búninga fyrir atvinnuleikhús.
Gunnar Hildimar Halldórsson hefur starfað sem ljósatæknimaður og hönnuður frá árinu 2011. Hann vann í Hörpu Tónlistarhúsi og sinnti þar lýsingarhönnun á fjölbreyttum viðburðum frá óperuuppfærslum til Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar. Hann hefur einnig starfað sjálfstætt m.a. á Aldrei fór ég suður hátíðinni, fyrir Íslenska dansflokkinn, Fjallabræður ofl. Hann hóf störf hjá Borgarleikhúsinu árið 2022 og meðal sýninga sem hann hefur hannað lýsingu fyrir eru Deleríum búbónis, Fúsi – aldur og fyrri störf og Óskaland.
Þorbjörn Steingrímsson lauk hljóðtækninámi á vegum Tækniskólans og Stúdíó Sýrlands árið 2016. Hann hóf störf sem hljóðmaður í Borgarleikhúsinu 2017 og var fastráðinn við hljóðdeild leikhússins árið 2019. Meðal nýlegra sýninga sem Þorbjörn hefur unnið hljóðmynd fyrir eru Deleríum búbónis, X, Fíasól gefst aldrei upp og Óskaland.
Hildur Emilsdóttir útskrifaðist úr Academy of Freelance Makeup í London árið 2017. Ennig hefur hún farið á námskeið í sérhæfingu í karakter-förðun og blóði hjá Creative Media Skills í London. Hún hóf störf við Borgarleikhúsið árið 2018 með sýningunni Rocky Horror og hefur unnið við nánast allar sýningar leikhússins síðan þá. Hún hefur einnig unnið við kvikmyndaverkefni meðfram starfi í Borgarleikhúsinu. Ásamt Andreu Ruth Andrésdóttur hannaði hún leikgervi í Eitraðri lítilli pillu.
Sýningastjórn: Þórey Selma Sverrisdóttir
Útfærsla og tæknileg úrlausn ljósakrónu: Hallur Ingi Pétursson
Keyrsla á ljósum og hljóði: Óskar Gíslason, Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir
Sviðsmaður: Þorbjörn Þorgeirsson
Aðstoð við leikmunagerð: Helga Rut Einarsdóttir
Aðstoð við búningagerð: Geirþrúður Einarsdóttir og Andrea Ösp Karelsdóttir
Leikgervi: Andrea Rut Andrésdóttir, Elsa Þuríður Þórisdóttir, Guðbjörg Ívarsdóttir, Hera Hlín Svavarsdóttir, Íris Bergsdóttir, Íris Lorange Káradóttir, Katrín Erla Friðriksdóttir, Kristín Elísabet Kristínardóttir, Sara Friðgeirsdóttir, Sigurveig Grétarsdóttir, Snædís Birta Ásgeirsdóttir, Úlfar Viktor Björnsson, Valgerður Ingólfsdóttir
Dresser: Andrea Ösp Karelsdóttir
Starfsnemi: Melkorka Gunborg Briansdóttir
Myndatökur fyrir plaköt: Hörður Sveinsson
Ritstjórn: Maríanna Clara Lúthersdóttir
Útgefandi: Leikfélag Reykjavíkur
Leikhússtjóri: Brynhildur Guðjónsdóttir
Ljósmyndun: Hörður Sveinsson
Tennesse Williams og Köttur á heitu blikkþaki
Tennessee Williams er af mörgum talinn einn af fjórum máttarstólpum bandarískrar leikritunar á tuttugustu öld – ásamt þeim Eugene O‘Neill, Arthur Miller og Edward Albee. Eftir hann liggja um 40 leikrit í fullri lengd og yfir 70 einþáttungar, auk tveggja skáldsagna og fjölda smásagna. Verk hans eru reglulega á verkefnaskrá leikhúsa um allan heim og mörg þeirra ódauðlegu hlutverka sem hann hefur skapað eru meðal stærstu áskorana sem leikarar takast á við. Leikrit hans einkennast oftar en ekki af heitum tilfinningum, bældum þrám og heimi sem virðist stöðugt á heljarþröm, hvort sem um er að ræða persónulegan eða samfélagslegan heim.
Tennessee Williams fæddist árið 1911 í Mississippi og ólst upp þar og í St. Louis í Missouri hjá drykkfelldum og ofbeldisfullum föður og brotinni móður, sem var föst í ofbeldissambandi. Williams fékk strax sem ungur maður áhuga á leikritun og á háskólaárum sínum á fjórða áratug síðustu aldar skrifaði hann tæpan tug einþáttunga sem sumir hverjir unnu til verðlauna í leikritunarsamkeppnum og voru settir upp af leikhópum í háskóla eða sjálfstæðum leikhúsum, m.a. í Chattanooga, Memphis, St. Louis og New York. Hann stundaði nám í blaðamennsku við Háskólann í Missouri og síðar við Washington háskóla í St. Louis, en lauk loks BA gráðu í ensku og leikritun frá Háskólanum í Iowa árið 1938. Fyrsta leikrit hans í fullri lengd, Candles to the Sun, var frumsýnt í St. Louis árið áður og árið 1939 vöktu einþáttungar hans undir yfirheitinu American Blues töluverða athygli. Það var þó ekki fyrr en með The Glass Menagerie (ísl. þýð. Glerdýrin) sem Tennessee Williams sló í gegn, en það var frumsýnt á Broadway árið 1945. Í kjölfarið fylgdu verk á borð við A Streetcar Named Desire, The Rose Tattoo, Orpheus Descending og Suddenly Last Summer, en öll þessi verk hafa verið einnig verið kvikmynduð.
Köttur á heitu blikkþaki, á frummálinu Cat on a Hot Tin Roof, var frumsýnt í Morosco-leikhúsinu á Broadway árið 1955 í leikstjórn Elia Kazan, en hann hafði áður leikstýrt bæði frumuppfærslunni og kvikmyndaútgáfunni af A Streetcar Named Desire. Það var einmitt í því verki sem Marlon Brando skaut upp á stjörnuhimininn í hlutverki Stanley Kowalski en hann lék Stanley bæði á sviði og á hvíta tjaldinu. Fyrir Kött á heitu blikkþaki hlaut Tennessee Williams Pulitzer-verðlaunin fyrir besta leikrit ársins, en hann hafði áður hreppt þau fyrir A Streetcar Named Desire. Með hlutverk þeirra Bricks og Maggie í frumuppfærslunni fóru þau Ben Gazzara, sem síðar varð einna helst þekktur fyrir leik í kvikmyndum John Cassavetes, og Barbara Bel Geddes, sem helst er minnst fyrir hlutverk sitt sem Miss Ellie Ewing í sjónvarpsþáttunum Dallas. Árið 1958 var verkið kvikmyndað með tveimur rísandi stjörnum í hlutverkum Bricks og Maggie – þeim Paul Newman og Elizabeth Taylor.
Evrópufrumsýning verksins fór fram á heldur ólíklegum stað, eða í Gautaborg aðeins hálfu ári eftir frumuppfærsluna á Broadway. Englendingar þurftu t.d. að bíða lengur eftir fyrstu uppfærslu verksins í London, en þegar að henni kom árið 1958 var ekki auðvelt að nálgast miða. Ritskoðun var þá enn við lýði í Bretlandi og vegna umfjöllunar um samkynhneigð í verkinu mátti ekki sýna það opinberlega. Til að komast framhjá því þurfti að breyta leikhúsinu Comedy Theatre í lokaðan klúbb og leikhúsgestir urðu að gerast meðlimir til að kaupa miða. Dæmi um ritskoðun verksins voru fleiri á þessum tíma og má meðal annars nefna að í kvikmyndinni með Elizabeth Taylor og Paul Newman var dregið allverulega úr vísunum í samkynhneigð, sem gerði það að verkum að Tennessee Williams var mjög ósáttur við myndina.
Segja má að eins konar ritskoðun hafi líka farið fram í frumuppfærslu verksins, en Elia Kazan hafði beitt öllu sínu afli til að fá Tennessee Williams til að endurskrifa ákveðna þætti verksins, sér í lagi í lokaþættinum þar sem Kazan vildi m.a. að Brick gengi í gegnum ákveðna umbreytingu. Williams vildi fyrir alla muni að Kazan myndi leikstýra verkinu, þannig að hann lét undan kröfum hans. Þegar verkið var hins vegar gefið út að lokinni frumsýningu, innihélt það bæði endinn sem Williams skrifaði upphaflega og þann sem sást á sviðinu á Broadway, ásamt útskýringum höfundar á kostum og göllum hins eldfima sambands höfundar og leikstjóra. Verkið kom aftur út 1975 með frekari breytingum höfundar og er það sú gerð sem liggur til grundvallar flestra uppsetninga verksins í dag, m.a. hér í Borgarleikhúsinu.
Nokkur verka Tennessee Williams hafa verið sýnd af atvinnuleikhúsum á Íslandi. Það fyrsta var Sumri hallar (e. Summer and Smoke) í Þjóðleikhúsinu 1953, en Glerdýrin hafa verið sett upp þrisvar – hjá LR 1958, LA 1975 og Fátæka leikhúsinu í Þjóðleikhúskjallaranum 2012 – og Sporvagninn Girnd sömuleiðis – í Þjóðleikhúsinu 1975 og 2015 og hjá LA 1995. Köttur á heitu blikkþaki hefur hins vegar aðeins einu sinni verið sett upp af íslensku atvinnuleikhúsi – í Þjóðleikhúsinu árið 1997 í þýðingu Birgis Sigurðssonar og leikstjórn Hallmars Sigurðssonar. Þá léku Margrét Vilhjálmsdóttir og Baltasar Kormákur þau Maggie og Brick, Erlingur Gíslason og Helga Bachmann léku Stóra pabba og Stóru mömmu, og Valdimar Örn Flygenring og Halldóra Björnsdóttir þau Gooper og Mae. Erlendis er þetta hins vegar vinsælasta verk Williams, ásamt Glerdýrunum og Sporvagninum Girnd og margir þekktir leikarar hafa tekist á við þessi bitastæðu hlutverk svo sem Brendan Fraser, Tommy Lee Jones og Kingsley Ben-Adir sem allir hafa leikið Brick, Kathleen Turner, Jessica Lange, Scarlett Johansson og Sienna Miller sem hafa farið með hlutverk Maggie á meðan Stóri pabbi hefur verið leikinn af leikurum á borð við Rip Torn, Charles Durning og James Earl Jones.
Köttur á heitu blikkþaki er eitt þeirra verka Tennessee Williams þar sem sagt er að hann hafi leitað í eigin ævi og uppvöxt eftir efnivið. Í Glerdýrunum má sjá fyrirmyndir mæðgnanna Amöndu og Láru Wingfield í móður og systur höfundar, en í Ketti á heitu blikkþaki má vafalaust benda á ofbeldisfullan föður Williams sem fyrirmynd að Stóra pabba og brotið fjölskyldulíf æsku hans og fíkn bæði föður hans og hans eigin hefur haft sín áhrif á ritun verksins. En það má ekki síst sjá ævisöguleg áhrif í verkinu í umfjöllun um samkynhneigð og þeirri staðreynd að Tennessee Williams var sjálfur samkynhneigður. Árið 1947 kynntist hann leikaranum Frank Merlo og áttu þeir í ástarsambandi næstu 14 árin og bjuggu m.a. saman þann tíma sem Williams skrifaði Kött á heitu blikkþaki. Þó samband þeirra hafi í raun aldrei verið sérstakt leyndarmál, ræddi Tennessee ekki opinberlega um samkynhneigð sína fyrr en 1970 þegar hann kom út í spjallþætti hjá sjónvarpsmanninum David Frost.
Tæpum sjötíu árum eftir frumsýningu Kattar á heitu blikkþaki hefur heimurinn tekið umtalsverðum breytingum og nú er til að mynda sjálfsagt að leika lokaþátt leikritsins eins og Tennessee Williams skrifaði hann, í öllu falli á Íslandi. En þótt heimurinn hafi breyst hafa vinsældir Williams ekki dalað og verk hans, sem eru að mörgu leyti skrifuð inn í aðstæður og umverfi sem eru kirfilega staðsett í tíma og rúmi fjarri okkur, eiga ekki síður erindi í dag. Persónur Williams, breyskar, brotnar og heillandi í ófullkomleika sínum tala enn til áhorfenda.
Magnús Þór Þorbergsson tók saman.
Hér loks tekur eitthvað inn úr þeirri doðabrynju sem umlykur Brick. Hjartað herðir sláttinn, ennið löðrar í svita, andardrátturinn örvast og röddin verður rám. Það sem feðgarnir eru að tala um hérna – Stóri-Pabbi vandræðalegur og tafsandi, Brick æstur og ofsafenginn – er þetta ónefnanlega samband sem var á milli Bricks og Skippers og Skipper dó til að eyða. Og þótt einhver fótur hefði verið fyrir því hefðu þeir tveir samt orðið að afneita því til að „halda andlitinu“ í þeirri veröld sem þeir hrærðust í. Kannski er þessi staðreynd kjarninn í þeim „óheilindum“ sem veldur ógeðinu sem Brick drekkur til að kæfa. Það er ef til vill hún sem hefur valdið falli hans. Eða kannski er hún bara ein birtingarmynd þess, og ekki einu sinni sú stórvægilegasta. Fuglinn sem ég er að reyna að snara í þessu leikriti er ekki lausn á sálarháska tiltekinnar manneskju. Ég er að reyna að fanga sannleikann í sammannlegri reynslu, þessum þokukenndu, flöktandi, hverfulu – magnþrungnu! – samskiptum lifandi manneskja sem sveipaðar eru óveðursskýjum sameiginlegrar sálarkreppu. Þótt persóna sé afhjúpuð á sviði ætti alltaf eitthvað að vera hulið áfram, rétt eins og í raunveruleikanum. Þegar raunveruleg manneskja er afhjúpuð, þá er ævinlega margt hulið áfram, jafnvel henni sjálfri. En þetta leysir leikritahöfund ekki undan þeirri skyldu að seilast eins langt og rýna eins djúpt og hann með góðu móti getur, en það gæti hugsanlega forðað honum frá því koma með „patent“ lausnir, einfaldar útlistanir sem verða til þess að leikrit verður bara leikrit ekki snara til að að fanga í sannleikann um hlutskipti manns.
Viðtal
"Þetta er bara svo svakalega gott verk!"Smelltu hér til að lesa viðtal við Ásthildi Úu og Sigurð Ingvarsson
Myndir úr sýningunni
Listabraut 3
103 Reykjavík
Kt. 420269-6849
Miðasala: 568 8000
midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500
Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is
Takk fyrir stuðninginn
Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.