Leikskrá

Fjallabak

Fjallabak er 723. frumsýning Leikfélags Reykjavíkur

Frumsýning 28. mars á Nýja sviði Borgarleikhússins. Sýningartími er tvær klukkustundir og fjörutíu mínútur. Eitt hlé. Ljósmyndir eru teknar á æfingu og eru því ekki endanleg heimild um sýninguna.

Leikarar

Björn Stefánsson

Esther Talía Casey

Hilmir Snær Guðnason

Hjörtur Jóhann Jónsson

Íris Tanja Flygenring

Hljómsveit

Guðmundur Pétursson vakti þjóðarathygli fyrir gítarleik sinn á unglingsaldri. Hann hefur síðan starfað með ótal listamönnum á hundruðum hljómplatna og tónleika sem hljóðfæraleikari, höfundur, útsetjari og tónlistarframleiðandi. Guðmundur hefur gefið út fimm hljómplötur í eigin nafni og samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammersveit Reykjavíkur og Stórsveit Reykjavíkur. Hann hefur unnið talsvert í leikhúsi, m.a. samdi hann tónlistina við Köttur á heitu blikkþaki í uppfærslu Þjóðleikhússins (1997) og söng titillagið í söngleiknum Stone Free á sviði Borgarleikhúsins (1996). Guðmundur hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir gítarleik sinn í þrígang, tvisvar fyrir höfundaverk í bæði jazz og opnum flokki og nú síðast plötu ársins 2024 í flokknum “Önnur tónlist.”

Þorsteinn Einarsson er aðal lagahöfundur og meðlimur hljómsveitarinnar Hjálmar en einnig starfar hann með hljómsveitunum Baggalút og Memfismafíunni ásamt því að spila með tónlistarmanninum Ásgeiri Trausta. Þorsteinn hefur unnið með Ásgeiri frá árinu 2012 og leikur þar á hljómborð, gítar og bassa en með Ásgeiri hefur hann ferðast víða um heim. Þorsteini hafa hlotnast ýmsar viðurkenningar á tónlistarferli sínum og má þar nefna tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, verðlauna Jónasar Hallgrímssonar og Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs en til þeirra var hann tilnefndur ásamt Ásgeiri Trausta og hljómsveit hans.

Höfundur

Ashley Robinson fæddist og ólst upp í smábænum Lockhart í South-Carolina í Bandaríkjunum. Hann útskrifaðist sem leikari frá University of North Carolina School of the Arts og framan af ferlinum starfaði hann fyrst og fremst sem slíkur. Á síðari árum hefur hann hins vegar í auknum mæli snúið sér að leikritaskrifum. Meðal verka hans má nefna söngleikinn Fall of ‘94 sem fjallar um voðaverk framin í heimabæ hans í Bandaríkjunum árið 1994. Þá skrifaði hann söngleikinn 5 & Dime ásamt tónskáldinu Dan Gillespie Sells sem einnig samdi tónlistina fyrir Fjallabak (Brokeback Mountain). Fyrir nokkrum árum hafði Robinson samband við Annie Proulx, höfund smásögunnar Brokeback Mountain, og bað hana um leyfi til að gera leikrit byggt á smásögunni og útskýrði um leið hvernig hann hyggðist setja söguna á svið. Proulx hafði áður verið beðin um leyfi fyrir leikuppfærslum á verkinu en alltaf sagt nei. Proulx hugnaðist hins vegar hugmynd Robinson og gaf leyfi sitt. Hún hefur síðan lýst yfir ánægju með bæði leikgerðina og sýninguna sem sett var upp í London og þótt hvoru tveggja fanga anda upphaflegu sögu sinnar vel.

Tónlist og söngtextar

Dan Gillespie Sells er tónskáld og tónlistarmaður. Hann er fæddur í Bretlandi árið 1978 og ólst upp í London. Hann stundaði nám við BRIT School of Performing Arts and Technology í Croyden og stofnaði ásamt félögum sínum hljómsveitina The Feeling sem hefur gefið út sex plötur. Hann hefur einnig starfað með mörgum þekktum tónlistarmönnum á borð við Sophie Ellis Bextor. Árið 2010 sneri Sells sér að því að semja tónlist fyrir sviðið og hefur síðan unnið töluvert við leikhús. Auk þess að semja tónlist fyrir leikritið Brokeback Mountain samdi hann tónlist við söngleikinn Everybody´s Talking About Jamie og fyrir ballettinn 3 With D.

Þýðing leikverks

Maríanna Clara Lúthersdóttir útskrifaðist sem leikkona frá LHÍ árið 2003 og með MA í bókmenntafræði frá HÍ árið 2012. Hún hefur starfað sem leikkona frá útskrift en einnig skrifað um bækur og bókmenntatengd málefni. Hún situr í stjórn Bókmenntahátíðar Reykjavíkur, hefur þýtt þrjár skáldsögur fyrir Angústúra og unnið leikgerðir fyrir Borgarleikhúsið – annars vegar Fíasól gefst aldrei upp ásamt Þórunni Örnu Kristjánsdóttur og hins vegar Á eigin vegum í samvinnu við Sölku Guðmundsdóttur. Síðastnefnda leikgerðin fékk tilnefningu til Grímunnar. Maríanna starfar nú sem listrænn ráðunautur við Borgarleikhúsið.

Þýðing söngtexta

Sigurbjörg Þrastardóttir er höfundur ljóðabóka, sagna og leikverka og hefur síðastliðin ár einnig fengist við þýðingar, meðal annars á ljóðum lárviðarskáldsins Simons Armitage. Hún hefur unnið með íslenskum tónskáldum og erlendum ljósmyndurum, hlotið tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og flytur verk sín reglulega á bókmenntahátíðum víðsvegar um Evrópu, frá Barcelona til Bratislava.

Leikstjórn

Valur Freyr Einarsson útskrifaðist sem leikari frá Manchester Metropolitan School of Theatre árið 1995. Hann hefur starfað í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu auk þess að vera einn af stofnendum sviðslistahópsins Common Nonsense. Hann hefur leikið í fjölda sjónvarpsþátta og kvikmynda en er einnig handritshöfundur og leikstjóri. Af nýlegum verkefnum hans í Borgarleikhúsinu má nefna Níu líf, Svartþröst og Deleríum búbónis auk þess sem hann skrifaði og leikstýrði verkinu Fyrrverandi. Hann hefur í tvígang hlotið Grímuverðlaun fyrir leik en einnig sem leikskáld ársins árið 2012.

Leikmyndahönnun

Axel Hallkell Jóhannesson útskrifaðist frá Myndlista og handíðaskóla Íslands árið 1986. Síðan þá hefur hann hannað hátt á fimmta tug leikmynda og búninga hjá leikhúsum allt frá Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu til Volksbühne í Berlín, Young Vic í London og Ríkisleikhúsinu í Gautaborg. Þá hefur hann einnig unnið verkefni fyrir fjöldamörg söfn svo sem Landnámssetur Íslands í Borgarnesi, Fuglasafn Sigurgeirs á Mývatni og Eldheima í Vestmannaeyjum en fyrir það síðastnefnda hlaut hann Hönnunarverðlaun Íslands. Axel er einnig tónlistarmaður og hefur starfað með hljómsveitinni Langa Sela og skuggunum síðan 1988.

Búningar

Stefanía Adolfsdóttir las búningasögu í París og er kjólameistari frá Iðnskólanum í Reykjavík. Eftir útskrift starfaði hún við búningagerð og hönnun víða um heim. Hér á landi hefur hún starfað við helstu listrænu stofnanir landsins sem og í kvikmyndum. Hún hefur verið deildarstjóri búningadeildar Borgarleikhússins síðan 1992 og hefur hannað fjöldann allan af búningum. Meðal nýlegra verkefna hennar fyrir Borgarleikhúsið má nefna Ein komst undan og Deleríum búbónis. Hún hlaut Grímuna fyrir búningana í Elly.

Lýsing

Gunnar Hildimar Halldórsson hefur starfað sem ljósatæknimaður og hönnuður frá árinu 2011. Hann vann í Hörpu tónlistarhúsi og sinnti þar lýsingarhönnun á fjölbreyttum viðburðum frá óperuuppfærslum til Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar. Hann hefur einnig starfað sjálfstætt m.a. á Aldrei fór ég suður hátíðinni, fyrir Íslenska dansflokkinn, Fjallabræður ofl. Hann hóf störf hjá Borgarleikhúsinu árið 2022 og meðal sýninga sem hann hefur hannað lýsingu fyrir eru Deleríum búbónis, Fúsi – aldur og fyrri störf, Óskaland og Köttur á heitu blikkþaki.

Hljóðhönnun

Þorbjörn Steingrímsson lauk hljóðtækninámi á vegum Tækniskólans og Stúdíó Sýrlands árið 2016. Hann hóf störf sem hljóðmaður í Borgarleikhúsinu 2017 og var fastráðinn við hljóðdeild leikhússins árið 2019. Meðal nýlegra sýninga sem Þorbjörn hefur unnið hljóðmynd fyrir eru Deleríum búbónis, X, Fíasól gefst aldrei upp og Óskaland.

Leikgervi

Guðbjörg Ívarsdóttir lauk sveinsprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1983. Guðbjörg var fastráðin við leikgervadeild Borgarleikhússins árið 2013 og hefur síðan þá komið að flestum sýningum hússins. Af nýlegum verkefnum hennar í Borgarleikhúsinu má nefna Svartþröst, Deleríum búbónis og Óskaland.

Aðrir aðstandendur

Sýningastjórn: Halla Káradóttir

Aðstoðarmaður leikstjóra: Gunnar Stephensen

Nándarþjálfun og ráðgjöf: Agnar Jón Egilsson

Myndvinnsla: Alex Leó Kristinsson

Hljóðkeyrsla: Snorri Beck og Máni Magnússon

Ljósakeyrsla: Jens Þórarinn Jónsson, Alex Leó Kristinsson, Stefán Daði Karelsson

Sviðsmenn: Franz Valgarðsson, Hákon Örn Hákonarson, Hjörtur Andri Hjartarson

Leikmyndagerð: Finnur G. Olguson - smiður, Silja Jónsdóttir - málari og smiður, Unnur Sif Geirdal - smiður, Viðar Jónsson - smiður og málari, Ásdís Hanna Gunnhildar Guðnadóttir - málari, Gabríel Backman Walterson - smiður, Hildur Magnúsdóttir Eirúnardóttir - málari, Jón Svavar Jósefsson - smiður, Ævar Uggason - smiður, Lotta Palenius - starfsnemi

Aðstoð við leikmyndagerð: Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir

Búningagerð: Stefanía Adolfsdóttir, Geirþrúður Einarsdóttir, Helga Lúðvíksdóttir, Ingunn Lára Brynjólfsdóttir, Maggý Dögg Emilsdóttir

Leikgervi: Andrea Ruth Andrésdóttir, Birgitta Rut Bjarnadóttir, Elsa Þuríður Þórisdóttir, Fríða Valdís Bárðardóttir, Guðbjörg Ívarsdóttir, Íris Lorange Káradóttir, Katrín Erla Friðriksdóttir, Kristín Elísabet Kristínardóttir, Valgerður Ingólfsdóttir

Önnur tónlist í sýningunni

Friðlaus

Lag: Crazy eftir Willie Nelson

Íslenskur texti: Maríanna Clara Lúthersdóttir

Sálmur

Lag: Þorsteinn Einarsson

Íslenskur texti: Sigurborg Þrastardóttir

Raddir Ölmu yngri og Franchine

Kría Valgerður Vignisdóttir

Mía Snæfríður Ólafsdóttir

Bríet Ebba Vignisdóttir

Sérstakar þakkir

Þorvaldur Kristinsson

Baldur Þórhallsson

Felix Bergsson

Jakob Jakobsson

Árni Pétur Guðjónsson

Bjarni Snæbjörnsson

Lars Henning

Úlfar Viktor

Leikskrá

Ritstjórn: Maríanna Clara Lúthersdóttir

Útgefandi: Leikfélag Reykjavíkur

Leikhússtjóri: Brynhildur Guðjónsdóttir

Ljósmyndun: Íris Dögg Einarsdóttir

Sýningaréttur

Fjallabak - Brokeback Mountain var upphaflega frumsýnt í @sohoplace, London, 10. maí 2023.

Sýningaréttur er fenginn samkvæmt samkomulagi við CPK Artists, LLC, 11 Riverside Drive, #13UV, New York, NY 10023, netfang: charles@cpkartists.com og The Agency (London) Ltd, 24 Pottery Lane, London, W11 4LZ, netfang: info@theagency.co.uk.

Með sérstöku samkomulagi við Nordiska ApS, Kaupmannahöfn – www.nordiska.dk

Myndatökur fyrir plaköt

Íris Dögg Einarsdóttir

Fjallabak (e. Brokeback Mountain), Borgarleikhúsið 2025. Listrænir stjórnendur og hljómsveit.

Drop­inn hol­ar stein­inn

Um Ennis, Jack og fyrirmyndir fyrr og nú

Hommar af minni kynslóð og eldri segja gjarnan að það hafi verið þeim erfitt að koma út úr skápnum því fyrirmyndirnar voru engar. Slík fullyrðing er þó ekki alveg sönn. Fyrirmyndir voru sannarlega til staðar en það var bara eiginlega vonlaust að tengja tilfinningar sínar og líf við þær. Tilfinningalíf þessara fyrirmynda var fyrirlitið. Ef hommar ætluðu að gangast við sjálfum sér vissu þeir að því fylgdi erfitt líf á jaðrinum.

Samkynhneigð var geymd í þögninni þegar sá sem þetta skrifar var barn, um og upp úr 1970, en sagan um Fjallabak hefst einmitt á sjöunda áratugnum. Fólk lækkaði róminn þegar hommar komu til tals. Sumir töluðu um „þessa vesalings menn“, aðrir notuðu ruddalegri lýsingar og hommi var versta skammaryrðið á leikvellinum. Þegar undirritaður, þá í háskólanámi á Bretlandseyjum í lok níunda áratugarins, var smám saman að gera sér grein fyrir að þessar tilfinningar yrðu ekki flúnar var breska pressan full af nöfnum karlmanna sem höfðu verið gripnir af lögreglu á stöðum þar sem aðrir karlmenn hittu þá til skyndikynna. Margir þessara niðurlægðu karlmanna voru, líkt og undirritaður, giftir konum og áttu börn. Margir þoldu ekki skömmina sem þeir höfðu leitt yfir sig og aðra og sviptu sig lífi. Stundum þurfti ekki opinbera nafnabirtingu til. Lífið í skápnum varð mörgum óbærilegt og sannarlega ekki bjart yfir framtíðinni fyrir þá sem vildu lifa, þrátt fyrir þessa vissu að þeir væru hommar.

Það hefur því alltaf verið lykilatriði fyrir þá sem áttu þessa upplifun sameiginlega að sýnileiki samkynhneigðra yrði meiri. Við þráðum skáldsögur, kvikmyndir, sjónvarpsþætti, tónlist sem talaði til okkar.

Þá kem ég að fyrirmyndunum sem ég ræddi hér í upphafi. Munið þið t.d. eftir ákaflega undarlegum týpum í Carry On kvikmyndunum og breskum sjónvarpsþáttum, daðri David Bowie við hinseginleika og skrýtnu köllunum í Village People? Eða kvikmyndir eins og Cabaret, Cruising, Rocky Horror eða Boys In The Band? Í íslenska sjónvarpinu mátti sjá hommann sem Billy Crystal lék einstaklega fallega í Löðri (Soap) árið 1977, ári fyrir stofnun Samtakanna 78. Allt var þetta vissulega hluti af því að byggja upp mynd af hinseginleika sem var á skjön við hið hefðbundna en tengdist því miður oftar en ekki óhamingjusömu lífi. Þessir vesalings menn.

Þegar alnæmi skellur svo á okkur í byrjun níunda áratugarins fóru fleiri að fjalla um þennan hóp og örlög hans. Þá var líf okkar og tilfinningar beintengt hryllilegum dauða og hörmungum. Ekki beint upplífgandi ofan á allt hitt en vissulega nauðsynlegt að fá þessar sögur sagðar. Margir okkar sem höfðum tekið skrefið út úr skápnum fórum líka að finna hugrekki til að fjalla um líf okkar og tilveru. Smám saman urðu þessar sögur líka jákvæðari og dýpri. Allt í einu förum við að sjá homma sem voru ekki tvívíðir heldur djúpar tilfinningaverur. Karlmenn sem geta lifað saman hamingjusömu fjölskyldulífi, ja eða ekki. Karlmenn sem þurfa að takast á við dagleg vandamál í leit sinni að lífshamingju. Fyrirmyndir verða fleiri og fleiri. Og kvikmyndir og sjónvarpsþættir um hinseginleika fóru að verða hluti af meginstraumnum. Það var gríðarleg breyting. Leikarar eins og Tom Hanks eða Robbie Williams gátu leikið homma án þess að það rústaði ferli þeirra. Hins vegar voru langflestir samkynhneigðu leikararnir áfram í skápnum en það er önnur saga.

Lagaleg réttindi höfðu líka gríðarmikið að segja og stærsta einstaka skrefið hér heima var réttur samkynhneigðra til að staðfesta samvist sem kom á Íslandi árið 1996.

Það er inn í þetta umhverfi sem Brokeback Mountain kemur eins og þruma árið 2005. Við hommarnir trúðum ekki okkar eigin augum. Sagan er einföld en samt svo flókin ástarsaga, saga um ást í meinum. Hún er vissulega harmræn en tilfinningar og barátta þeirra Ennis og Jack rímaði svo fullkomlega við ferðalag til frelsis sem svo margir okkar höfðu upplifað. Við hommarnir elskuðum þessa kvikmynd, ræddum hana af innlifun hver við annan, mátuðum okkur í aðstæðunum. Áttum okkur uppáhald. Ég tengdi djúpt við þá báða en kannski aðeins meira við Ennis.

Urðum svo öskuvondir þegar kvikmyndin fékk ekki Óskarinn. En það kom síðar, árið 2016, með yndislegri kvikmynd, Moonlight. Það er nefnilega í þessari mannréttindabaráttu eins hjá öllum hinum hópunum. Dropinn holar steininn.

Það er ósk mín að leikhúsgestir finni í þessari mögnuðu ástarsögu streng sem þeir geta tengt við, hvernig sem þeir skilgreina sig á hinum magnaða skala kynhneigðarinnar. Við eigum öll skilið að eiga innihaldsríkt og gott líf með þeim sem við elskum.

Felix Bergsson

Myndir úr sýningunni

Annie Proulx höf­und­ur smá­sög­unn­ar Brokeback Mountain

Annie Proulx rithöfundur og blaðamaður.

Annie Proulx er rithöfundur og blaðamaður og þekkt fyrir epískar skáldsögur sínar sem og magnaðar smásögur. Hún er fædd í Connecticut í Bandaríkjunum árið 1935 og ólst upp á Austurströnd Bandaríkjanna en fjölskyldan flutti oft vegna vinnu föður hennar. Eftir grunnskóla hóf hún nám í ColbyCollage en hætti þar eftir að hún giftist fyrsta eiginmanni sínum árið 1955. Síðar fór hún aftur í skóla, kláraði meistaranám í sögu við Concordia háskólann í Montreal í Kanada og var langt komin með doktorsgráðu þegar hún hætti til að geta einbeitt sér að skrifum. Háskólinn hefur síðar veitt henni heiðursdoktorsnafnbót. Hún starfaði lengi sem blaðamaður en sendi reglulega frá sér smásögur sem birtust í tímaritum víðsvegar um Bandaríkin. Það var svo ekki fyrr en 1988 sem fyrsta smásagnasafnið kom út á bók en það var HeartSongs árið 1988. Hún var svo orðin 57 ára þegar fyrsta skáldsaga hennar, Postcards, kom út árið 1992. Fyrir Postcards hlaut hún PEN/Faulkner verðlaunin og var hún fyrsta konan til að hljóta þau verðlaun. 1994 fékk hún svo Pulitzer verðlaunin fyrir aðra skáldsögu sína, The ShippingNews en hún er eina verk Proulx sem hefur komið út á íslensku undir titlinum Skipafréttir. Eftir The ShippingNews var einnig gerð kvikmynd sem rakaði ekki síður til sín verðlaunum en BrokebackMountain. Síðasta stóra skáldsaga hennar er Barkskins en hún kom út árið 2016. Proulx hefur gegnum árin fengið fjöldamörg verðlaun og viðurkenningar fyrir skrif sín – þar á meðal ein þekktustu smásagnaverðlaun heims, O‘Henry verðlaunin, en þau hefur hún unnið tvisvar. Frægasta smásaga hennar er sennilega BrokebackMountain, sem birtist í smásagnasafninu CloseRange – WyomingStories, sem kom út árið 1999. Kvikmyndin sem var gerð eftir smásögunni árið 2005 í leikstjórn Ang Lee sló umsvifalaust í gegn og vann til fjölda verðlauna – henni hlotnuðust þó ekki Óskarsverðlaunin fyrir bestu myndina og var það gríðarlega umdeilt þar sem ljóst þótt að ekki aðeins var hún rómuð af gagnrýnendum heldur einnig gríðarlega vinsæl.

Vinsældir kvikmyndarinnar eru enn miklar og aðdáendur hennar og smásögunnar sem hún byggir á fjöldamargir. Sumir aðdáendur hafa svo skrifað nýjar sögur um aðalsöguhetjurnar tvær, þá Ennis og Jack – sem og nýjan enda á hina harmrænu smásögu. Annie Proulx hefur ekki verið sátt við þá meðferð sögunnar sem henni finnst taka frá raunverulegu markmiði og boðskap skrifa sinna sem var að beina ljósi að skelfilegum afleiðingum fordóma í garð hinsegin fólks. Á móti má benda á að höfundur ræður auðvitað aldrei viðtökum verka sinna – þegar verk komið í hendur lesanda verður sagan lesandans. Þá er líka skiljanlegt að þörfin fyrir hinsegin ástarsögur sem enda vel hafi verið orðin knýjandi þar sem fjölmargar þekktar hinsegin ástarsögur hafa harmrænan enda. Í öllu falli má telja ljóst að Ennis og Jack hafa fyrir löngu öðlast eigið líf, ekki bara í kvikmyndinni og leikritinu heldur í brjóstum lesenda og áhorfenda um allan heim.

Maríanna Clara Lúthersdóttir tók saman

Fjallabak (e. Brokeback Mountain), Borgarleikhúsið 2025. Hluti af leikmynd.
Heim

Listabraut 3

103 Reykjavík

Kt. 420269-6849

Miðasala: 568 8000

midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500

Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is

Miðasalan er opin 12-17 alla virka daga og 12-20 á sýningardögum. 568 8000
jafnlaunavottun 2023-2026

Takk fyrir stuðninginn

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.

reykjavíkurborg logo
orkusalan logoölgerðin logo