Lokasýning Níu lífa, sem var jafnframt sýning númer 250, fór fram á Stóra sviðinu í gærkvöldi fyrir fullum sal.
Mörg úr leikhópnum kveðja nú einstakt tímabil, þar á meðal Hlynur Atli en hann hefur farið með hlutverk litla Bubba allt frá upphafi æfinga fyrir fimm árum, sem er næstum hálf ævi tólf ára leikarans. Leikhópurinn kvaddist því með gleði- og sorgartárum eftir sýninguna í gærkvöldi.
Vinsældir sýningarinnar eiga sér enga hliðstæðu hér á landi og hefur hún slegið öll aðsóknarmet. Níu líf hefur hrifið leikhúsgesti á öllum aldri og eru margir sem koma aftur og aftur. Ef lagður er saman áhorfendafjöldi á hverri sýningu síðustu fjögur ár má gefa sér að 130.000 manns séu búin að sitja í salnum og upplifa þessa merkilegu sögu.
„Það er einstakt að fá að segja sögu sem snertir áhorfendur af öllum kynslóðum - það er stórt. Það eru áhorfendur og ástin til þeirra sem hefur gefið manni drifkraftinn til að segja þessa sögu aftur og aftur.” segir Halldóra Geirharðsdóttir. Hún hlaut tvær Grímur fyrir hlutverk sitt, sem leikkona ársins í aðalhlutverki og sem söngvari ársins fyrir hlutverk sitt sem Egó Bubbi.
Nú taka við ný ævintýri hjá leikurum og aðstandendum, þar á meðal Ólafi Agli Egilssyni, höfundi og leikstjóra sýningarinnar, en hann er með nýtt og spennandi verkefni í bígerð, sem tilkynnt verður um fljótlega.
„Það getur ekki verið eftirsjá eftir einhverju sem er svona stórkostlegt. Það er bara þakklæti og gleði og húrra fyrir okkur,“ segir Bubbi Morthens um kveðjustundina.
Ólafur Egill Egilsson segir „Það er ljúfsárt að kveðja 9líf eftir næstum fjögur ár. Fyrst og fremst er ég þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna með frábæru listafólki og starfsfólki Borgarleikhússins, fyrir frábærar viðtökur áhorfenda og fyrir hugrekki Bubba sem lagði til sögu sína, allar sínar hæðir og lægðir og dró ekkert undan. Níu líf varð meira en leiksýning, meira en aðsóknarmet, meira en Bubbi sjálfur, þó stór sé. Það veit ég af öllum samtölunum, símtölunum, og skilaboðunum sem ég hef fengið síðustu 4 árin, þar sem fólk vill tjá sig, þakka fyrir sig, segja mér sína sögu, segja mér frá sársauka sínum, segja mér að það hafi nú aldrei verið sérstakur Bubba aðdáandi, en...
Það eru forréttindi að hafa fengið að taka þátt í því að umbreyta myrkri í ljós, umbreyta skugga sem fylgdi litlum dreng í hálfa öld í sól að morgni. Sól sem aldrei sest, afþví að hún skín í hjarta okkar allra, ef við bara leyfum henni það, sól kærleika, æðruleysis og vonar.”