Heim
Leita

Nýr samn­ing­ur Reykja­vík­ur­borg­ar við Borg­ar­leik­hús­ið

27. nóvember 2024

Steinþór Einarsson, starfandi sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkur, Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður stjórnar Leikfélags Reykjavíkur, Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins og Einar Þorsteinsson borgarstjóri.

Fulltrúar Leikfélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar undirrituðu í dag samning um rekstur Borgarleikhússins til næstu þriggja ára.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður stjórnar Leikfélags Reykjavíkur, undirrituðu samninginn ásamt Brynhildi Guðjónsdóttur, leikhússtjóra Borgarleikhússins. Samningurinn gildir frá fyrsta janúar 2025 til og með 31. desember 2027.

Einar segir Borgarleikhúsið leika lykilhlutverk í menningarlífi borgarbúa og landsmanna allra. „Við erum stolt og þakklát fyrir samstarfið við Leikfélag Reykjavíkur sem hefur starfað óslitið í borginni frá árinu 1897. Í leikhúsinu komum við saman og upplifum allar sterkustu tilfinningar mannlegrar tilveru og fátt færir okkur nær hvert öðru en einmitt sú upplifun. Þá er öllum reykvískum börnum boðið í heimsókn í Borgarleikhúsið á skólagöngu sinni og fá að upplifa töfra leikhússins.“

“Hlökkum til að sjá leikhúsið vaxa og dafna áfram!”

Markmið samningsins er að í Reykjavík sé rekið fjölbreytt og metnaðarfullt leikhús þar sem sköpuð er og sýnd leiklist í hæsta gæðaflokki. Þar er jafnframt tekið fram að Borgarleikhúsið sé lifandi vettvangur nýsköpunar og kynningar á íslenskri leiklist þar sem erlendri klassík og samtímaleiklist sé einnig gerð góð skil, að samfella og framþróun sé tryggð í öflugu leiklistarstarfi, að listuppeldi barna og ungmenna sé sinnt sérstaklega og að starfsemi Borgarleikhússins höfði til borgarbúa og geri þeim kleift að njóta fjölbreyttra sviðslista.

“Framtíð Borgarleikhússins er björt,” segir borgarstjóri. “Þar er unnið af fagmennsku og næmni fyrir þýðingarmiklu hlutverki leikhússins í samfélaginu. Þessi samningur tryggir reksturinn til næstu þriggja ára og við hlökkum til að sjá leikhúsið vaxa og dafna áfram!”

Máttur leikhússins mikill

Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri segir að framlag Reykjavíkurborgar tryggi rekstrargrundvöll Borgarleikhússins sem hefur á síðustu árum sannað að það er fyrsta flokks sviðslistastofnun sem laðar til sín fjölda áhorfenda á víðum aldri og með fjölbreyttan bakgrunn. „Máttur leikhússins er mikill og þegar best lætur nær það augum og eyrum fjölda fólks, vekur hughrif og veitir ánægju. Það er okkur dýrmætt að Reykjavíkurborg skuli líta á leikhúsið sitt sem öflugan og mikilvægan þátt í menningarlífi borgarbúa. Við erum ævinlega þakklát fyrir stuðningin og hlökkum til að gera enn betur í framtíðinni. Takk, Reykjavík!“

Heim

Listabraut 3

103 Reykjavík

Kt. 420269-6849

Miðasala: 568 8000

midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500

Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is

Miðasalan er opin 12-17 alla virka daga og 12-20 á sýningardögum. 568 8000
jafnlaunavottun 2023-2026

Takk fyrir stuðninginn

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.

reykjavíkurborg logoorkusalan logoölgerðin logo