Þriðjudaginn 3. desember verður boðið upp á leikhúskaffi í tengslum við sýninguna Köttur á heitu blikkþaki í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar sem frumsýnd verður 28. desember.
Leikhúskaffið er skemmtilegur viðburður fyrir öll sem hafa áhuga á leikhúsi. Það hefst á Borgarbókasafni Reykjavíkur í Kringlunni þar sem Þorleifur Örn mun segja frá sýningunni. Í kjölfarið verður farið yfir á Litla svið Borgarleikhússins þar sem leikmyndin verður skoðuð og boðið upp á umræður og spurningar fyrir áhugasöm.
Gestum leikhúskaffis býðst 10% afsláttur af miðaverði á sýninguna.
Um sýninguna:
Í þessu meistaraverki Tennessee Williams kemur fjölskylda saman til að fagna stórafmæli föðurins, en þegar líða tekur á kvöldið er fögnuðurinn fljótur að snúast upp í andhverfu sína. Erfðadeilur, sálarflækjur og kynferðisleg spenna leiða persónur verksins á tilfinningaleg jarðsprengjusvæði, þar sem baráttan fyrir tilverunni, frelsinu og sannleikanum tekur yfir. Hvað erum við tilbúin að gera til að horfast ekki í augu við raunveruleikann?
Þorleifur Örn er þekktur fyrir umfangsmiklar sýningar og listræn stórvirki, en í þetta sinn tekst hann á við sígilt verk með innilegri nálgun og mögnuðum leikhópi. Þetta magnaða verðlaunaverk hefur aðeins einu sinni áður verið sett á svið í atvinnuleikhúsi á Íslandi en um fádæma vinsældir þess þarf ekki að fjölyrða.
Nánari upplýsingar má finna á fb síðu viðburðarins með því að smella hér.
Hjólastólaaðgengi er á viðburðinum.
Öll eru hjartanlega velkomin!