Köttur á heitu blikkþaki, í leikstjórn Þorleifs Arnar, var frumsýnd við mikinn fögnuð áhorfenda laugardaginn 28. desember s.l., á litla sviði Borgarleikhússins.
Í þessu meistaraverki Tennesse Williams, sem hefur einungis einu sinni áður verið sett upp á Íslandi, kemur fjölskylda saman til að fagna stórafmæli föðurins. Þegar líða tekur á kvöldið er fögnuðurinn fljótur að snúast upp í andhverfu sína. Erfðadeilur, sálarflækjur og kynferðisleg spenna leiða persónur verksins á tilfinningaleg jarðsprengjusvæði, þar sem baráttan fyrir tilverunni, frelsinu og sannleikanum tekur yfir.
Með hlutverk fara Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Sigurður Ingvarsson, Hilmir Snær Guðnason, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Heiðdís C. Hlynsdóttir, Hákon Jóhannesson og Halldór Gylfason.
Erna Mist hannaði leikmynd og búninga sýningarinnar, Gunnar Hildimar Halldórsson lýsingu, og hljóðmynd var í höndum Þorbjörns Steingrímssonar.