Í gær 11. febrúar var fyrsti samlestur á þremur nýjum leikritum eftir börn sem unnu handritasamkeppni Sagna í ár. Borgarleikhúsið er aðili að Sögum sem eru stórt samstarfsverkefni sjö stofnana sem allar vinna að barnamenningu og sköpun. Árlega er skorað á krakka á aldrinum 8-12 ára til að taka þátt og senda inn handrit. Borgarleikhúsið velur verkin sem sett eru á svið af útskriftarnemendum Leiklistarskólans.
Vinningshandritin í ár eru Aftur saman eftir Leu Rós da Silva, Öskur í fjarska eftir Eldeyju Vöku Björnsdóttur, og Óvænt ferð á Keili eftir þær Brynju Rún Héðinsdóttur og Elly Margrete Sand Jespersdóttur.
Leikstjórar eru Eva Halldóra Guðmundsdóttir, Steinunn Arinbjarnardóttir og Ylfa Ösp Áskelsdóttir. Leikmynda- og búningahönnuður er Bryndís Ósk Ingvarsdóttir.
Við hlökkum til að sjá þessi frábæru leikrit eftir unga upprennandi höfunda lifna við í Borgarleikhúsinu en leikritin verða frumsýnd á Nýja sviðinu 10. apríl n.k. og verða einnig sýnd á Barnamenningarhátíð 12. apríl.