Drop­inn hol­ar stein­inn

28. mars 2025

Fjallabak (e. Brokeback Mountain). Borgarleikhúsið, 2025. Hjörtur Jóhann Jónsson og Björn Stefánsson í hlutverki Ennis og Jack.

Í tilefni af frumsýningu á Fjallabak (e. Brokeback Mountain) endurbirtum við grein eftir Felix Bergsson sem upphaflega birtist í rafrænni leikskrá.

Um Ennis, Jack og fyrirmyndir fyrr og nú

Hommar af minni kynslóð og eldri segja gjarnan að það hafi verið þeim erfitt að koma út úr skápnum því fyrirmyndirnar voru engar. Slík fullyrðing er þó ekki alveg sönn. Fyrirmyndir voru sannarlega til staðar en það var bara eiginlega vonlaust að tengja tilfinningar sínar og líf við þær. Tilfinningalíf þessara fyrirmynda var fyrirlitið. Ef hommar ætluðu að gangast við sjálfum sér vissu þeir að því fylgdi erfitt líf á jaðrinum.

Samkynhneigð var geymd í þögninni þegar sá sem þetta skrifar var barn, um og upp úr 1970, en sagan um Fjallabak hefst einmitt á sjöunda áratugnum. Fólk lækkaði róminn þegar hommar komu til tals. Sumir töluðu um „þessa vesalings menn“, aðrir notuðu ruddalegri lýsingar og hommi var versta skammaryrðið á leikvellinum. Þegar undirritaður, þá í háskólanámi á Bretlandseyjum í lok níunda áratugarins, var smám saman að gera sér grein fyrir að þessar tilfinningar yrðu ekki flúnar var breska pressan full af nöfnum karlmanna sem höfðu verið gripnir af lögreglu á stöðum þar sem aðrir karlmenn hittu þá til skyndikynna. Margir þessara niðurlægðu karlmanna voru, líkt og undirritaður, giftir konum og áttu börn. Margir þoldu ekki skömmina sem þeir höfðu leitt yfir sig og aðra og sviptu sig lífi. Stundum þurfti ekki opinbera nafnabirtingu til. Lífið í skápnum varð mörgum óbærilegt og sannarlega ekki bjart yfir framtíðinni fyrir þá sem vildu lifa, þrátt fyrir þessa vissu að þeir væru hommar.

Það hefur því alltaf verið lykilatriði fyrir þá sem áttu þessa upplifun sameiginlega að sýnileiki samkynhneigðra yrði meiri. Við þráðum skáldsögur, kvikmyndir, sjónvarpsþætti, tónlist sem talaði til okkar.

Þá kem ég að fyrirmyndunum sem ég ræddi hér í upphafi. Munið þið t.d. eftir ákaflega undarlegum týpum í Carry On kvikmyndunum og breskum sjónvarpsþáttum, daðri David Bowie við hinseginleika og skrýtnu köllunum í Village People? Eða kvikmyndir eins og Cabaret, Cruising, Rocky Horror eða Boys In The Band? Í íslenska sjónvarpinu mátti sjá hommann sem Billy Crystal lék einstaklega fallega í Löðri (Soap) árið 1977, ári fyrir stofnun Samtakanna 78. Allt var þetta vissulega hluti af því að byggja upp mynd af hinseginleika sem var á skjön við hið hefðbundna en tengdist því miður oftar en ekki óhamingjusömu lífi. Þessir vesalings menn.

Þegar alnæmi skellur svo á okkur í byrjun níunda áratugarins fóru fleiri að fjalla um þennan hóp og örlög hans. Þá var líf okkar og tilfinningar beintengt hryllilegum dauða og hörmungum. Ekki beint upplífgandi ofan á allt hitt en vissulega nauðsynlegt að fá þessar sögur sagðar. Margir okkar sem höfðum tekið skrefið út úr skápnum fórum líka að finna hugrekki til að fjalla um líf okkar og tilveru. Smám saman urðu þessar sögur líka jákvæðari og dýpri. Allt í einu förum við að sjá homma sem voru ekki tvívíðir heldur djúpar tilfinningaverur. Karlmenn sem geta lifað saman hamingjusömu fjölskyldulífi, ja eða ekki. Karlmenn sem þurfa að takast á við dagleg vandamál í leit sinni að lífshamingju. Fyrirmyndir verða fleiri og fleiri. Og kvikmyndir og sjónvarpsþættir um hinseginleika fóru að verða hluti af meginstraumnum. Það var gríðarleg breyting. Leikarar eins og Tom Hanks eða Robbie Williams gátu leikið homma án þess að það rústaði ferli þeirra. Hins vegar voru langflestir samkynhneigðu leikararnir áfram í skápnum en það er önnur saga.

Lagaleg réttindi höfðu líka gríðarmikið að segja og stærsta einstaka skrefið hér heima var réttur samkynhneigðra til að staðfesta samvist sem kom á Íslandi árið 1996.

Það er inn í þetta umhverfi sem Brokeback Mountain kemur eins og þruma árið 2005. Við hommarnir trúðum ekki okkar eigin augum. Sagan er einföld en samt svo flókin ástarsaga, saga um ást í meinum. Hún er vissulega harmræn en tilfinningar og barátta þeirra Ennis og Jack rímaði svo fullkomlega við ferðalag til frelsis sem svo margir okkar höfðu upplifað. Við hommarnir elskuðum þessa kvikmynd, ræddum hana af innlifun hver við annan, mátuðum okkur í aðstæðunum. Áttum okkur uppáhald. Ég tengdi djúpt við þá báða en kannski aðeins meira við Ennis.

Urðum svo öskuvondir þegar kvikmyndin fékk ekki Óskarinn. En það kom síðar, árið 2016, með yndislegri kvikmynd, Moonlight. Það er nefnilega í þessari mannréttindabaráttu eins hjá öllum hinum hópunum. Dropinn holar steininn.

Það er ósk mín að leikhúsgestir finni í þessari mögnuðu ástarsögu streng sem þeir geta tengt við, hvernig sem þeir skilgreina sig á hinum magnaða skala kynhneigðarinnar. Við eigum öll skilið að eiga innihaldsríkt og gott líf með þeim sem við elskum.

Felix Bergsson

Heim

Listabraut 3

103 Reykjavík

Kt. 420269-6849

Miðasala: 568 8000

midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500

Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is

Miðasalan er opin 12-17 alla virka daga og 12-20 á sýningardögum. 568 8000
jafnlaunavottun 2023-2026

Takk fyrir stuðninginn

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.

reykjavíkurborg logo
orkusalan logoölgerðin logo