Heim
Leita

Borg­ar­leik­hús­ið trygg­ir sér sýn­ing­ar­rétt á Moul­in Rou­ge! söng­leikn­um

10. desember 2024

Moulin Rouge! söngleikurinn verður frumsýndur í Borgarleikhúsinu í september 2025

Borgarleikhúsið hefur tryggt sér sýningarétt á söngleiknum Moulin Rouge!

Borgarleikhúsið hefur tryggt sér sýningarrétt á nýrri útfærslu Nordiska Production á Moulin Rouge! söngleiknum sem frumsýndur verður á Stóra sviðinu í september 2025.

Moulin Rouge! söngleikurinn byggir á Óskarsverðlaunamynd Baz Luhrmann frá árinu 2001 sem skartaði þeim Nicole Kidman og Ewan MacGregor í aðalhlutverkum. Árið 2018 leit söngleikurinn dagsins ljós í Boston og ári síðar var hann frumsýndur á Broadway þar sem hann gengur enn fyrir fullu húsi. Sýningin hlaut tíu Tony® verðlaun, meðal annars sem besti söngleikurinn, fyrir leikstjórn, kóreógrafíu og tónlistarútsetningu.

Líkt og í kvikmynd Baz Luhrmann er tónlistin í söngleiknum listilega fléttuð saman úr lögum og tónverkum úr ýmsum áttum, þar á meðal mörgum af þekktustu slögurum tónlistarsögunnar allt frá Bizet til Bowie og Beyonce.

Íslandsfrumsýning í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur

Söngleikurinn Moulin Rouge! gerist í París þar sem söngvaskáldið Christian kemur til borgarinnar í leit að innblæstri. Honum er tekið opnum örmum af bóhemum Montmartre sem vinna að söngleik sem þá dreymir um að verði settur upp í Rauðu Myllunni. Skáldið unga slæst í lið með þeim en verður ástfanginn af stjörnu Myllunnar – hinni óviðjafnanlegu Satine.

Leikstjóri íslensku uppfærslunnar verður Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins. Tónlistarstjóri er Jón Ólafsson og þýðing er í höndum Braga Valdimars Skúlasonar. Uppsetning Borgarleikhússins á Moulin Rouge! söngleiknum verður stórbrotin upplifun fyrir augu, eyru og hjarta. Öllu verður til tjaldað hvað varðar leik- og hljóðmynd og besta sviðslistafólk landsins fengið til að flytja okkur inn í grípandi heim Rauðu Myllunnar í París 1899!

„Það er stórkostleg tilfinning að geta loksins greint frá því að söngleikurinn Moulin Rouge! sé á leið í Borgarleikhúsið.“ Segir Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri. „Við erum búin að vinna lengi að því að tryggja okkur titilinn og nú hefst undirbúningurinn fyrir alvöru. Það fer óneitanlega fiðringur um leikstjórann að vera að stíga inn í heim Rauðu myllunnar sem Baz Luhrmann gerði ódauðlega í rómaðri kvikmynd sinni. Eldheit ástarsaga, stórkostleg tónlist og gildi bóhemanna ofar öllu: frelsi, fegurð, sannleikur, ást. Það gerist ekki heitara – verið velkominn í Rauðu mylluna!“

Sigurför söngleiksins Moulin Rouge! víða um heim

Söngleikurinn Moulin Rouge! hefur verið sýndur víða um heim. Borgarleikhúsið tryggði sér réttinn til að sýna verkið í gegnum réttindaskrifstofu Nordiska sem fer með sýningarrétt nýrrar útfærslu (e. non replica) söngleiksins á Norðurlöndum. Þar með fylgir Reykjavík í fótspor Osló, Stokkhólms, Helsinki og Kaupmannahafnar þar sem söngleikurinn hefur verið settur upp frá haustinu 2023 við gríðarlegar vinsældir og einróma lof gagnrýnenda.

Um Moulin Rouge í París

Moulin Rouge í París, undir forystu Jean-Jacques Clerico, forstjóra, er stórbrotinn, glæsilegur heimur og tákn fyrir Parísarskemmtanir allt frá árinu 1889. Upphaflega opnaði staðurinn sem vinsæll kabarett- og dansstaður en öðlaðist sess sem goðsagnakenndur vettvangur fyrir tónleikasýningar á þriðja áratug 20. aldarinnar, og síðar sem leikhús þar sem margir frægir franskir og alþjóðlegir listamenn tróðu upp. Í dag býður Moulin Rouge upp á revíusýninguna Féerie, þar sem 60 flytjendur taka þátt í tveggja tíma flutningi þar sem skipt er á milli dansatriða, og óvæntra uppákoma – þar á meðal hins fræga franska Can-can dans!

Frá upphafi hefur Moulin Rouge boðið gestum sínum að upplifa gleði og tilfinningar í gegnum einstakar og íburðamiklar skrautsýningar.

Um Moulin Rouge! söngleikinn

Moulin Rouge! söngleikurinn var heimsfrumsýndur í Boston 2018 og náði fljótt alþjóðlegri velgengni. Ári síðar var söngleikurinn frumsýndur á Broadway þar sem hann fékk mikið lof áhorfenda jafnt sem gagnrýnenda og vann til tíu Tony verðlauna. Velgengni söngleiksins hefur haldið áfram og er söngleikurinn enn sýndur fyrir fullu húsi á Broadway auk þess hann er sýndur í London, Köln, Utrecht og á leikferð í Norður Ameríku. Sýningarferð um heiminn hefst í Edinburgh í apríl 2025. Fyrri sviðssetningar hafa meðal annars verið í Tokyo og Osaka (2023 og 2024), Seoul (2023) og sem hluti af ástralskri leikferð árin 2021-2024.

Framleiðandur Moulin Rouge! söngleiksins eru Carmen Pavlovic og Gerry Ryan hjá Global Creatures ásamt Bill Damaschke.

Moulin Rouge ® er skrásett vörumerki Moulin Rouge

Tilkynnt verður síðar hvenær miðasala hefst.

Heim

Listabraut 3

103 Reykjavík

Kt. 420269-6849

Miðasala: 568 8000

midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500

Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is

Miðasalan er opin 12-17 alla virka daga og 12-20 á sýningardögum. 568 8000
jafnlaunavottun 2023-2026

Takk fyrir stuðninginn

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.

reykjavíkurborg logoorkusalan logoölgerðin logo