Borg­ar­leik­hús­ið til­kynn­ir nöfn leik­ara og dans­ara í Moul­in Rou­ge! söng­leikn­um

25. apríl 2025

Moulin Rouge! Söngleikurinn, Borgarleikhúsið. Samsett mynd leikarar

Brynhildur Guðjónsdóttir opinberaði í dag nöfn þeirra leikara og dansara sem munu fara með hlutverk í söngleiknum Moulin Rouge! sem verður frumsýndur í haust á Stóra sviði Borgarleikhússins. Talsverð eftirvænting hefur ríkt eftir þeirri tilkynningu enda var gríðarmikill áhugi á dans- og söngprufum fyrir söngleikinn, yfir 300 dansarar sóttu um að taka þátt í prufunum fyrir þau danshlutverk sem í boði voru. Hæfileikarnir sem komu fram í prufunum voru stórkostlegir og valnefnd stóð frammi fyrir afar erfiðu verkefni.

Í burðarhlutverkum sýningarinnar, þeirra Satine og Christian, verða þau Hildur Vala Baldursdóttir og Mikael Kaaber. Í aðalhlutverkum eru einnig Halldór Gylfason sem Zidler, Björn Stefánsson sem Toulouse-Lautrec, Valur Freyr Einarsson sem hertoginn og Haraldur Ari Stefánsson sem Santiago. Með önnur hlutverk fara Íris Tanja Flygenring, Margrét Eir Hönnudóttir, Esther Talía Casey og Pétur Ernir Svavarsson.

Danshlutverk skipa þau Anaïs Barthe Leite, Birna Karlsdóttir, Björn Dagur Bjarnason, Ernesto Camilo Valdes, Fanný Lísa Hevesi, Gabriel Marling Rideout, Hannes Þór Egilsson, Karen Sif Kamgan, Karitas Lotta Tulinius, Marinó Máni Mabazza, Rúnar Bjarnason, Þórey Birgisdóttir og Margrét Hörn Jóhannsdóttir.

„Það er ótrúlega spennandi að geta loks svipt hulunni af leik-og danshópi sýningarinnar en það er stórfenglegur hópur listamanna sem hreppti þessi eftirsóttu hlutverk. Áhuginn á dans- og söngprufunum fór fram úr björtustu vonum og það var magnað að sjá þá miklu hæfileika sem komu fram þar. Valið var langt frá því að vera auðvelt en það er þannig með lúxusinn – sá á kvölina sem á völina. Ég hlakka óskaplega til framhaldsins. Nú mega mylluspaðarnir fara að snúast!“ Sagði Brynhildur Guðjónsdóttir, sem mun leikstýra íslensku uppfærslunni á útgáfu Anders Albiens hjá Nordiska á Moulin Rouge! söngleiknum.

Um Moulin Rouge kvikmyndina

Kvikmynd Baz Luhrmanns, MOULIN ROUGE!, sem dreift var af Twentieth Century Studios með sérstöku samkomulagi við Buena Vista Theatrical, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2001. Myndin hlaut verðlaun sem besta kvikmyndin á Golden Globe verðlaunahátíðinni og var tilefnd til átta Óskarsverðlauna, þar af hlaut hún verðlaun í tveimur flokkum. Hún var tekin upp í Sydney í Ástralíu og talin hafa blásið nýju lífi í dans- og söngvamyndir. Tónlistin úr myndinni sló í gegn og naut strax mikilla vinsælda.

Um Moulin Rouge í París

Moulin Rouge í París, undir forystu Jean-Jacques Clerico, forstjóra, er stórbrotinn, glæsilegur heimur og tákn fyrir Parísarskemmtanir allt frá árinu 1889. Upphaflega opnaði staðurinn sem vinsæll kabarett- og dansstaður en öðlaðist sess sem goðsagnakenndur vettvangur fyrir tónleikasýningar á þriðja áratug 20. aldarinnar, og síðar sem leikhús þar sem margir frægir franskir og alþjóðlegir listamenn tróðu upp. Í dag býður Moulin Rouge upp á revíusýninguna Féerie, þar sem 60 flytjendur taka þátt í tveggja tíma flutningi þar sem skipt er á milli dansatriða, og óvæntra uppákoma – þar á meðal hins fræga franska Can-can dans!

Frá upphafi hefur Moulin Rouge boðið gestum sínum að upplifa gleði og tilfinningar í gegnum einstakar og íburðamiklar skrautsýningar.

http://www.moulinrouge.fr/

Um Moulin Rouge! söngleikinn

Moulin Rouge! söngleikurinn var heimsfrumsýndur í Boston árið 2018 og náði fljótt alþjóðlegri velgengni. Ári síðar var hann frumsýndur á Broadway og hlaut mikið lof áhorfenda jafnt sem gagnrýnenda og vann til tíu Tony® verðlauna. Velgengni söngleiksins hefur haldið áfram og er hann enn sýndur fyrir fullu húsi á Broadway, auk þess að vera sýndur á West End í London, í Þýskalandi og í Hollandi. Jafnframt er söngleikurinn á sýningarferð um Norður-Ameríku og sýningarferð um heiminn hófst í apríl 2025 auk þess sem sýningar hefjast í Suður-Kóreu í ár.

Framleiðandur Moulin Rouge! söngleiksins eru Carmen Pavlovic og Gerry Ryan hjá Global Creatures ásamt Bill Damaschke.

Moulin Rouge ® er skrásett vörumerki Moulin Rouge

Moulin Rouge! Söngleikurinn Borgarleikhúsinu, samsett mynd af leikurum
Moulin Rouge! Söngleikurinn Borgarleikhúsinu, samsett mynd af dönsurum.
Heim

Listabraut 3

103 Reykjavík

Kt. 420269-6849

Miðasala: 568 8000

midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500

Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is

Miðasalan er opin 12-17 alla virka daga og 12-20 á sýningardögum. 568 8000
jafnlaunavottun 2023-2026

Takk fyrir stuðninginn

Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.

reykjavíkurborg logo
orkusalan logoölgerðin logo