Á síðasta leikári voru mörkuð tímamót í íslenskri leiklistarsögu þegar söngleikurinn Níu líf var sýndur í 250. sinn fyrir fullum sal. Máttur leikhússins er mikill og þegar best lætur ná sýningarnar okkar augum og eyrum fjölda fólks, vekja hughrif og veita ánægju.
Barnamenning er okkur í Borgarleikhúsinu mikið hjartans mál og það var því ákaflega skemmtilegt að Fíasól gefst aldrei upp! hreppti þrenn verðlaun á Sögum – Verðlaunahátíð barnanna. Á Grímuverðlaunahátíðinni var sýningin Fúsi – aldur og fyrri störf sigursæl og snýr hún aftur, annað leikárið í röð ásamt Fíusól og hinn mögnuðu Lúnu eftir Tyrfing Tyrfingsson.
Þegar vel gengur er bjart yfir og við eflumst í að gera enn betur. Leikárið framundan er fullt af nýju efni, nærandi sögum, nostalgíu, notalegheitum og nostursamlega unnum þýðingum. Á verkefnaskránni má finna glænýtt verk eftir fráfarandi leikskáld Borgarleikhússins Birni Jón Sigurðsson sem ber titilinn Sýslumaður dauðans, Fjallabak, angurvært og fallegt verk byggt á kvikmyndinni Brokeback Mountain, bráðfyndna nútímaverkið Óskaland sem fjallar um það sem okkar bíður á efri árum og meistaraverk Tennessee Williams Kött á heitu blikkþaki sem leikstjórinn Þorleifur Örn Arnarsson mun fara höndum um á Litla sviðinu ásamt mögnuðum leikhópi.
Endurkoma Ellyjar er fjölmörgum mikið gleðiefni en nú, fimm árum síðar, stígur Katrín Halldóra á sviðið á nýjan leik ásamt leikurum og hljómsveit þessarar rómuðu sýningar Gísla Arnar Garðarssonar. Í kringum afmæli Leikfélags Reykjavíkur í janúar fáum við að njóta sögu Auðar Övu Ólafsdóttur á Stóra sviðinu en Gréta Kristín Ómarsdóttir leiðir glæsilegan hóp leikara í glænýrri leikgerð Bjarna Jónssonar á hinni vinsælu skáldsögu Ungfrú Ísland. Rúsínan í pylsuendanum er svo tvímælalaust nýjasta sköpunarverk Ólafs Egils Egilssonar, sem hann að þessu sinni vinnur ásamt Völu Kristínu Eiríksdóttur. Í mars hittum við fyrir manninn sem glatt hefur kynslóðir Íslendinga, fengið okkur til að dansa, syngja hástöfum og veltast um af hlátri. Við skyggnumst undir húddið á fremsta grínista landsins og komumst að því hvað knýr þessa dýrðlegu vél í sýningunni Þetta er Laddi. Átta framúrskarandi gamanleikarar mæta á svið ásamt Jóni Ólafssyni og hljómsveit, að ógleymdum Ladda sjálfum!
Af nógu verður að taka en ótaldar eru allar glæsilegu samstarfs- og gestasýningarnar sem við bjóðum upp á á leikárinu. Ég hvet þig, kæri leikhúsgestur, til að skoða áskriftarleiðirnar okkar vel og alla afslættina sem kortagestum bjóðast. Áskrift veitir á bilinu 30- 40% afslátt, vildarkjör á veitingum og 50% afslátt fyrir 25 ára og yngri. Það munar um minna!
Í Borgarleikhúsinu skín alltaf sól. Sól inni, sól í hjarta, sól í sinni.
Við erum að springa úr spenningi. Vertu með!
Brynhildur Guðjónsdóttir,
leikhússtjóri.
Listabraut 3
103 Reykjavík
Kt. 420269-6849
Miðasala: 568 8000
midasala@borgarleikhus.is
Skrifstofa: 568 5500
Fyrirspurnir: borgarleikhus@borgarleikhus.is
Takk fyrir stuðninginn
Borgarleikhúsið er rekið með sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg sem gerir okkur kleift að halda áfram að bjóða landsmönnum upp á kraftmikið og skapandi leikhús.